Verkefni

Hjálp48

 Verkefnið Hjálp48 felur í sér þróun, prófun og innleiðingu á stuðningi við aðstandendur eftir skyndilegan missi ástvinar. Ef fólk deyr heima eða utan spítala þá er ekkert “kerfi” sem grípur aðstandendur, sem er ólíkt því sem gerist ef ástvinur deyr á stofnun. Hjálp48 á að verða það kerfi.

Undirbúningsvinna og mótun verkefnis hefur staðið yfir í nokkurn tíma en Sorgarmiðstöð hefur fundið sterkt ákall frá syrgjendum eftir þessari þjónustu. Hjálp48 er hugsað sem teymisvinna fagaðila og jafningja. Verkefnið byggist á því að stíga inn í aðstæður innan 48 stunda frá andláti, með stuðningi við syrgjendur og með leiðbeiningum um viðeigandi úrræði eftir eðli missis. Byrjað verður að þróa verklagið og byggja upp þjónustuna fyrir þau sem missa í sjálfsvígi, en svo verður þjónustan yfirfærð á annan skyndilegan missi. Mikil vinna í undirbúningi er nú þegar hafin, en til að mynda hafa verið haldnar vinnustofur fyrir aðstandendur, fræðslu- og kynningarefni hefur verið skapað, hagsmunaaðilagreining gerð, verkefnaáætlun hefur verið lögð fyrir og fundir haldnir með bæði hagsmunaaðilum og viðbragðsaðilum.

Anna Guðný Hermannsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri yfir verkefninu Hjálp48 en hún hóf störf í júní 2024. 

Verkefnið Hjálp48 er enn í undirbúnings – og þróunarferli.

Lokað yfir hátíðirnar

Sorgarmiðstöð verður lokuð frá 25. desember til 2. janúar. Ef erindið er brýnt má hringja í neyðarsíma okkar 862 4141

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira