Lokað frá 23. desember til 3. janúar. Allar pantanir sem berast á þeim tíma verða afgreiddar eftir 3. janúar. Gleðilega hátíð

Almennt um sorg

Hvað er sorg?

Ekkert okkar kemst í gegnum lífið án þess að kynnast sorginni. Hún er sammannleg tilfinning og eðlilegt viðbragð við missi sem felst í tilfinningalegum og líkamlegum einkennum.

Sorgin tekur á sig ýmsar myndir og á hún sér uppruna í því að vonir og væntingar hafa brugðist og framtíðaráform raskast.

Fólk upplifir sorg á mismunandi hátt tengt eftirfarandi þáttum: Tegund sorgar, tengslum við hinn látna, fyrri reynslu, trúarskoðunum, aldri og kyni syrgjandans. Konur tjá sig oft meira um sorgina en karlar, sérstaklega um depurð og ótta.

Mikill dagamunur getur verið á líðan fólks í sorg og tilfinningasveiflur töluverðar. Sterkar og áður óþekktar tilfinningar geta skapað óöryggi og kvíða hjá syrgjendum sem þurfa undir þeim kringumstæðum að mæta stuðningi og umhyggju umhverfisins, vina, fjölskyldu og vinnufélaga.

Þrátt fyrir að sorgin geti verið mjög sársaukafull þá er hún mikilvægt skref í áttina að því bataferli sem er nauðsynlegt eftir missi. Sorg er ekki atburður, heldur ferli sem getur tekið langan tíma. Hún er hluti heilbrigðs lífs og henni þarf að finna farveg sem miðar að því að læra að lifa við missinn. Að finna þennan farveg getur reynst flókið og tekið langan tíma.

Mörgum hefur reynst vel að leita skilnings og stuðnings bæði hjá fagfólki og einnig meðal þeirra sem skilja af eigin raun hvað við er að etja.

Líkamleg viðbrögð

Líkamlegar breytingar, sem svipa til líkamlegra sjúkdóma, eru algengar í sorgarferlinu og geta valdið syrgjendum áhyggjum um að ofan á allt séu þeir líka orðnir alvarlega veikir. Sorgin er ekki sjúkdómur heldur bregst líkaminn við sorginni á þennan hátt. Einkenni eins og að eiga erfitt með öndun, hjartsláttartruflanir, herpingur í brjósti, meltingartruflanir, höfuðkvillar, svimaköst, sjóntruflanir, svitaaukning, lystarleysi, grátköst, munnþurrkur, andarteppa, þróttleysi, vöðvaslappleiki, viðkvæmi fyrir hávaða, svefntruflanir, óróleiki og pirringur eru einkenni sem margir syrgjendur verða varir við.

Algengir fylgifiskar sorgarinnar eru ennfremur einbeitingarleysi, minnisleysi, þreyta og úthaldsleysi. Ekki er hægt að útiloka að um sjúkdóma sé að ræða og ættu syrgjendur því að leita læknis ef þeir telja svo vera.

Sorgarúrvinnsla

Sorgargangan er löng og ströng. Henni verður ekki markaður tími og að öllum líkindum verður hún alla tíð hluti af lífsgöngu þess sem misst hefur ástvin sinn. En með því að gangast við erfiðum tilfinningum og líkamlegri vanlíðan og sporna ekki við þeim, öðlast syrgjandinn aukinn styrk til að takast á við sorgina. Látinn ástvinur mun ávallt eiga sér stað í hjarta þeirra sem eftir lifa, en mikilvægt er að feta veginn áfram og finna nýjum tengslum stað við hlið hinna þegar frá líður.

Ein leið til þess að horfast í augu við vanlíðan sína er að eiga sér trúnaðarmann sem er tilbúinn að hlusta og sýna hlýju. Oft hefur fólk mikla þörf fyrir að ræða um hinn látna og ýmislegt sem andlátinu tengist. Þá er gott að eiga sér eyra sem hlustar.

Markviss fagleg fræðsla um sorg og sorgarviðbrögð getur einnig skipt höfuðmáli á leiðinni til sjálfshjálpar eftir átakanlegan missi. Á þann hátt öðlast syrgjandinn frekari skilning á líðan sinni sem hjálpar honum að sættast við tilfinningar sínar og takast á við lífið. Nauðsynlegt og sjálfsagt getur verið að leita sér aðstoðar fagfólks, s.s. presta, listmeðferðafræðinga, félagsráðgjafa, sálfræðinga eða geðlækna.

Flestir syrgjendur hafa staðið frammi fyrir því að vita ekki hvernig þeir eigi að komast í gegnum daginn og hafa enga trú á að líðan þeirra eigi eftir að batna eða þeir taki gleði sína á ný. En smám saman fækkar þeim dögum sem litaðir eru af vonleysi og depurð og andleg og líkamleg líðan batnar.

Lífið verður aftur þess virði að lifa því. Sárin gróa en eftir situr ör missis sem syrgjandinn lærir að lifa með. Söknuðurinn hverfur aldrei og minningin um hinn látna lifir áfram. Átakanleg og sársaukafull reynsla getur gert okkur hæfari til að lifa með kærleika, umburðarlyndi og þakklæti að leiðarljósi.

Tilfinningar sorgar

Fyrir marga er hjálplegt að skilgreina sorgina út frá nokkrum mismunandi tilfinningum. Röð tilfinninga og lengd er mismunandi á milli einstaklinga. Sumir upplifa eina tilfinningu meiri en aðra og sumir upplifa ekki allar tilfinningarnar.

Það er eðlilegt að upplifa allar neðantaldar tilfinningar og mikilvægt að geta unnið sig í gegnum þær, tekist á við raunveruleikann og öðlast jafnvægi. Eftir því sem tíminn líður mun draga úr sorginni og hún verður sársaukaminni en hverfur aldrei að fullu. Við lærum að lifa með henni.

Doða - og óraunveruleikatilfinning

Margir syrgjendur hafa lýst mikilli doða- og óraunveruleikatilfinningu fyrstu mánuðina eftir missi. Það er engu líkara en að skynfærin nemi skilaboð á annan hátt en vant er. Sorgmætt fólk virðist stundum hvorki heyra né skilja það sem sagt er. Það verður gjarna utan við sig og getur fundið fyrir ruglingslegum hugsunum og ringulreið. Syrgjendur lýsa líðan sinni gjarnan þannig að þeir séu ,,frosnir“ eða ,,fastir“.

Afneitun

Afneitun er önnur tilfinning. Þá forðast syrgjandinn að horfast í augu við missinn og á þann hátt getur hann takmarkað sársauka og vanlíðan tímabundið.

Reiði

Reiðin er ein þeirra erfiðu og sterku tilfinninga sem birtast hjá syrgjendum og er eðlilegur hluti af sorgarferlinu.

Reiðin getur tekið á sig ýmsar myndir. Hún getur beinst gegn syrgjandanum sjálfum, hinum látna, læknum og hjúkrunarfólki og ekki má gleyma reiðinni sem beinist gegn Guði og lífinu sjálfu. Reiðin kann að fá útrás með því að finna blóraböggul, ástæðu fyrir hinum hörmulegu atburðum. Mikilvægt er að horfast í augu við reiðina og sýna þær tilfinningar sem við höfum í sorgarferlinu. Fólk sem geymir reiðina innra með sér getur upplifað seinna í lífinu bæði líkamleg og streitutengd vandamál vegna þessara niðurbældu tilfinninu.

Ásökun eða sektarkennd

Ásökun eða sektarkennd eru tilfinningar sem tengjast reiðinni og geta skapað mikla vanlíðan og streitu. Reiðin leitar oft svara við spurningum s.s. „Hvers vegna ég?“ eða „Hvað gerði ég til að verðskulda þetta?“ Sektarkenndin kemur fram þegar eitthvað virðist ósagt eða ofsagt, ógert eða ofgert.

Einmanleiki og depurð

Einmanaleiki og depurð birtist oft síðar í sorgarferlinu, jafnvel nokkrum mánuðum eftir missi. Fyrstu vikur sorgarinnar einkennast af viðbrögðum við áfallinu s.s. reiði, sekt og afneitun og á því tímabili er síður rými fyrir einmanaleik. Svo er sem óbærilegur einmanaleiki og depurð þrengi sér inn í líf syrgjandans. Þessar tilfinningar geta haft áhrif á daglegt líf viðkomandi. Syrgjandinn hugsar þá minna um eigin heilsu, nærist illa og á erfitt með tengsl bæði við annað fólk og umhverfi sitt. Hann hefur hvorki frumkvæði né kraft til að leita eftir samskiptum. Syrgjandinn upplifir mikið tómarúm og er stundum félagslega einangraður, hræddur og kvíðinn og skilur ekki hvað er að gerast innra með honum. Breytt hlutverk kallar á nýja færni, sem kann að vera erfitt að tileinka sér á álagstíma. Þá er sjálfsmyndin einnig oft skekin, þegar mikilvægur hluti lífsins breytist við fráfall ástvinar.

Tyllidagar og hátíðir

Dagar eins og afmæli, jól, páskar, brúðkaupsafmæli og fleiri dagar reynast erfiðir þegar ástvinur hefur fallið frá. Þessir dagar fá allt annað yfirbragð en áður því nú koma þeir án þess að þú hafir þann sem þú elskaðir hjá þér.  Söknuðurinn verður áþreifanlegur og einsemdin djúp. Hátíðir eru tími fjölskyldunnar.  Þeir sem hafa misst hafa ástvin velta jafnvel fyrir sér hvernig þeir komast í gegnum þessa daga. Hér á eftir fara leiðbeiningar og hugleiðingar á hvern hátt við getum tekist á við þessa daga.  

  1. Skipuleggðu fram í tímann. Ef þú getur taktu þér frí frá daglegu amstri, taktu þann tíma sem þú þarft til að syrgja á þessum tiltekna degi.
  2. Veldu þann félagsskap sem þú vilt vera í þennan dag. Ef til vill viltu vera með einhverjum sem hefur verið í þínum sporum frekar en öðrum. Þú getur ákveðið þetta alveg sjálf/ur.
  3. Ekki bíða eftir að aðrir muni eftir dögunum sem þú kvíðir. Hringdu heldur í þá sem þú vilt hafa með þér og minntu þá á. Þín sorg er ekki sorg allra í kringum þig og því ekki víst að þeir muni eftir henni. Þetta er rétti tíminn til að hringja í þá sem buðu fram aðstoð. Talaðu bara skýrt og segðu hvað það er sem þig vantar.
  4. Gerðu það sem þú telur skipta máli fyrir þig þennan dag. Á afmælisdegi á ekki síður við að fagna lífi ástvinar þíns en að minnst dauða hans. Það má til dæmis gera eitthvað sem þið hefðuð gert saman. Þú getur líka samið nýja minningargrein þar sem þú tekur saman minningarnar, lýsir útliti, fasi og mikilvægum eiginleikum hins látna.
  5. Ef það er einhver eftirsjá, eitthvað sem var ósagt eða óleyst mál sem valda hugarangri, hugleiddu þá hvort það gæti hjálpað að skrifa bréf eða tala við einhvern sem þú treystir.
  6. Rifjaðu upp minningar. Taktu fram myndirnar, bréf, allt sem minnir þig á þann sem þú hefur misst. Kallaðu upp í hugann allar gleðistundirnar og erfiðu stundirnar. Þetta getur verið sársaukafullt til að byrja með, en með tímanum fylla þær hugann af þakklæti og hlýju, þú verður þakklát/-ur fyrir það sem þú áttir.
  7. Ef til vill hjálpar að lesa aftur samúðarkortin og skeytin sem bárust eftir fráfall ástvinar þíns til að minna þig á að þú ert ekki ein/-n. Það er fólk í kringum þig sem vill þér vel og er tilbúið að hjálpa.
  8. Gefðu þér tíma til að horfa fram á veginn. Þótt þú syrgir það liðna skaltu samt reyna að gleðjast yfir deginum í dag. Farðu í huganum yfir allt það góða sem þú átt, hugsaðu til fólksins sem er partur af lífi þínu í dag.
  9. Láttu þig dreyma um góða hluti. Skipuleggðu eitthvað eitt (stórt) sem þig langar að gera í náinni framtíð, hvort sem það er ferðalag, að endurskipuleggja heimilið, skipta um vinnu eða eitthvað allt annað.
  10. Hittu vini, kveiktu á kerti, lestu góða bók, taktu til í skápnum þínum, farðu í göngutúr eða horfðu á góða bíómynd. Eitthvað sem þú vilt gera sem gerir þér gott.
  11. Þú skalt leyfa þér að gleðjast þrátt fyrir missinn. Þú ert ekki að vanvirða minningu þess sem látin(n) er.

Hátíðisdagar gefa þér tækifæri til að líta yfir farinn veg, sjá hvert tími og aðstæður hafa leitt þig, draga af því lærdóm og ekki síður að horfa fram á veginn. Og þó ekki væri annað þá minna þeir þig á að þú ert þó komin/-n þetta langt og það er í sjálfu sér næg ástæða til að halda daginn hátíðlegan.

Ef til vill getur eitthvað af þessu verið hjálplegt á erfiðum stundum.

•    Þegar tilfinningarnar hellast yfir þig skaltu leyfa þeim að koma og ekki loka á þær
•    Tjáðu þig. Segðu fjölskyldu þinni og vinum hvað þú treystir þér í hverju sinni
•    Mundu að allt er breytt og hátíðir verða ekki eins og þær voru. Ef þig langar ekki til að halda í hefðir þá skaltu bara sleppa því. Leyfðu þér að gera hlutina eftir þínu höfði.
•    Skipuleggðu dagana fyrirfram. Þá veistu hvað er framundan og getur þannig komið í veg fyrir streitu og jafnvel fengið á tilfinninguna að þú hafir einhverja stjórn á aðstæðum. Vertu með plan A og plan B.
•    Þú gætir íhugað að komað þér upp nýjum hefðum, til dæmis að minnast þess sem þú hefur misst og heiðra hann með einhverjum hætti á hátíðisdögum.
•    Fjölskyldan ætti að tala um hinn látna á hátíðum, segja af honum sögur, skoða myndir, myndbönd eða minnast hans með öðrum hætti.
•    Vertu vinur þinn, ekki vera of hörð/harður við sjálfan þig.
•    Það má alveg fresta hátíðahöldum, þessir dagar koma aftur að ári. Þú mátt ákveða hvað er best fyrir þig. Þú mátt líka skipta um skoðun, oft ef þú vilt. Það er eðlilegt að finnast eins og maður eigi aldrei aftur eftir að njóta hátíðiðsdaga. Þessir dagar verða heldur aldrei eins og þeir voru. En flestir finna leiðir til að njóta hátíða aftur, með nýjum hefðum og gömlum.
•    Farðu vel með þig
•    Ekki gera meira en þú treystir þér til.
•    Leyfðu öðrum að hjálpa þér og aðstoða. Við þurfum öll stuðningi í gegnum erfiða tím.

10 Staðreyndir um sorg

Sorg er eðlileg

Miklum missi fylgir sorg. Við syrgjum þegar einhver nákominn okkur deyr. Sorgin er þáttur í söknuði okkar og aðlögun að nýju lífi. Þótt sorg sé eðlilegt ferli er hún ein af erfiðustu tilfinningunum sem við finnum fyrir.

Þín sorg er versta sorgin

Eigin sorg er ætíð sú erfiðasta, hvort sem við missum maka, barn, foreldri eða systkini og hvernig sem missinn ber að – skyndilega eða eftir veikindi.

Leiðin út úr sorginni
er í gegnum hana

Sorgin er sársaukafull. Ástvinamissir er eitt erfiðasta áfallið sem við verðum fyrir og það er engin auðveld leið til að halda áfram. Við gætum reynt að forðast sársaukann, komast sem fyrst í gegnum sorgina en það er ekki hægt. Við verðum að finna hugrekki til að lifa með sorginni.

Sorgin er nátengd sambandinu við
þann sem fallinn er frá

Samband okkar við aðra manneskju er alltaf einstakt og hefur ákveðið gildi fyrir okkur. Ef við viljum skilja viðbrögð okkar við sorginni til fulls þurfum við að átta okkur á því hvert samband okkar við hinn látna var og þar af leiðandi hvað það er sem við erum að missa. Við syrgjum maka á annan hátt en barn, vin eða foreldri. Ástvinamissir verkar á okkur með ólíkum hætti og því syrgjum við á mismunandi hátt.

Sorgarferlið er mikil vinna

Sorgarúrvinnsla krefst mikillar orku, oftast mun meiri en fólk býst við. Hún tekur á jafnt líkamlega sem andlega.

Sorgarferlið tekur langan tíma

Fyrstu mánuðurnir eru yfirleitt afar tilfinningaþrungnir. Fyrsta árið er erfitt – allt minnir á missinn, til dæmis fyrstu jólin, afmælisdagar, þegar ár er liðið frá andláti og enn fleiri viðburðir. Allir þessir dagar eru erfiðir en við verðum að sjá fram úr þeim, vita að þeir eru eðlilegir og sýna sjálfum okkur samúð. Sumir kalla annað árið ár einmanaleikans. Það er þá sem við gerum okkur enn frekar grein fyrir því að lífið er og verður alltaf án þess sem fallinn er frá.

Sorgin er óútreiknanleg

Syrgjandi gengur í gegnum margvíslegar tilfinningar og hegðun. Ekki einungis þær sem almennt eru tengdar við sorg svo sem depurð eða grát, heldur getur margt sem hann gerir og hugsar um verið gjörólíkt honum. Þegar syrgjandinn heldur að hann hafi náð tökum á sorginni gerist allt í einu eitthvað honum að óvörum. Það eina sem er öruggt við sorgina er að hún er óútreiknanleg.

Oft þarf að takast á við annars konar missi

Andlát maka getur leitt til margvíslegra annarra breytinga á lífi manns. Margir missa um leið fjárhagslegt öryggi, heimili sitt eða jafnvel sjálfstæði. Draumar um framtíðina hverfa eins og dögg fyrir sólu, t.d. um að lifa hamingjusöm til æviloka eða verja efri árum saman. Þetta kallar allt á sorgarviðbrögð.

Sorgin kemur og fer

Í fyrstu finnur syrgjandinn ekki alltaf til mikils sársauka því að hann er dofinn og í áfalli. Oft verður sársaukinn dýpri eftir nokkra mánuði. Sorgarferlið getur verið eins og rússíbanareið. Einn daginn líður syrgjandanum ágætlega en þann næsta er hann langt niðri. Einmitt þegar hann heldur að hann sé að komast yfir sorgina læðist að honum mikil depurð. Þeir sem ekki gera sér grein fyrir þessu ferli gætu orðið fyrir miklum vonbrigðum með bakslagið en það er mikilvægt að átta sig á því að sorgarferlinu vindur svona fram.

Sorgarúrvinnslan verður áhrifaríkust með aðstoð

Fólk hefur oft óraunhæfar hugmyndir um sorgina og getur brugðist við með óviðeigandi hætti. Fæstir skilja hvernig sorgarferlið gengur fyrir sig og búast við að syrgjandinn jafni sig nokkuð fljótt. Fólk getur virst ónærgætið en í raun heldur það oft að sorgin sé svo persónuleg að það eigi ekki að ræða hana. Því finnst óþægilegt að vera í návist við syrgjandann og eftir jarðarförina er hinn látni jafnvel ekki nefndur á nafn því að fólk óttast að segja eitthvað óviðeigandi. Það vill vel en syrgjandi sem finnur slíkar óraunhæfar væntingar á það til að draga sig í hlé. Það er gott að leita til fagaðila eða finna fólk sem deilir svipaðri eða sömu reynslu. Það getur verið mjög hjálplegt að ræða við einhvern sem skilur sorgina og að hún snýst um að lifa með missinum.

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira