Lokað frá 23. desember til 3. janúar. Allar pantanir sem berast á þeim tíma verða afgreiddar eftir 3. janúar. Gleðilega hátíð

Bjargráð í sorg

Sorg tekur tíma og hún getur verið mjög sár, en sumt getur hjálpað okkur til að líða betur. Við köllum það „bjargráð“ og þau eru af ýmsum toga. Hver og einn þarf svolítið að finna sína leið, því það sama hentar ekki öllum. Við erum mismunandi, missir okkar og aðstæður eru ólíkar.

Ef þú átt barn/börn sem þú hefur ekki orku til að hugsa vel um, ekki skammast þín fyrir það. Mundu að börn eiga lögbundinn rétt til stuðnings frá heilsugæslunni (lög nr. 50/2019). Fáðu hjálp til þess að barnið þitt fái þennan mikilvæga stuðning. Það hjálpar þér líka.

Hér eru ráð sem syrgjendur hafa sjálfir sett fram.

GANGI ÞÉR VEL.

1. Að leita sér hjálpar

· Samskipti við annað fólk, ættingja, vini, vinnufélaga og aðra í innsta hring.

· Að tala um hinn látna/hina látnu við vini eða fagaðila.

· Að þiggja aðstoð, segja „já takk“ við þá sem bjóða hjálp.

· Að lesa/hlusta/horfa á efni um sorg, sorgarviðbrögð, áföll, sjálfsvíg (ef það á við) eða um

   bjargráð annarra sem hafa misst.

· Jafningjasamtal þ.e hitta aðra sem hafa upplifað samskonar missi, t.d ekkja hittir ekkju.

· Að finna sér fyrirmynd, þ.e fólk sem hefur upplifað áfall/áföll og komist í gegnum það/þau.

· Að ylja sér við minningar um þann/þá sem er farin/n og skiptast á sögum með sínum nánustu.

· Að nýta trú á æðri mátt, framhaldslíf, eða annað sem styrkir þig.

· Að taka þátt í jafningjastuðningshópi hjá Sorgarmiðstöð (makamissir, barnsmissir, missir í sjálfsvígi,

   foreldramissir o.fl).

2. Að hlúa að sér

· Góður svefn/hvíld er nauðsyn. Mögulega þarf aðstoð með svefn- eða róandi lyf um tíma.

· Góð og regluleg næring er nauðsynleg. Fá einhvern til að koma með mat til sín.

· Að nýta náttúru og útiveru gefur orku og losar spennu. Göngur eru góðar ýmist ein/n síns liðs eða

   með öðrum um láglendi og á fjöll.

· Að sýna sér mildi. Leyfa sér að ráða ekki við allt.

· Að fara á fætur, klæða sig, hafa eitthvað fyrir stafni.

· Að hafa mynd af þeim sem við syrgjum þar sem við sjáum hana.

· Að tala við látna ástvininn upphátt eða í huganum.

· Að skrifa minningargrein eða bréf til hans/hennar og birta eða geyma.

· Að fara að leiðinu/minningarstaðnum, snyrta staðinn og kveikja ljós, eða setja blóm.

· Að þakka fyrir það sem maður hefur s.s fjölskyldu, vini, heilsu, minningar.

· Að fara í jóga mismunandi tegundir t.d jóga nidra eða trauma jóga.

· Að fara í sund, það er ákveðin heilun í vatni.

· Að fara í nudd, það losar um tárin/losar spennu.

· Að hugleiða eða/og iðka núvitund.

· Að skrifa dagbók. Fá útrás með því að setja tilfinningar sínar og líðan í orð.

· Að leyfa sér að gráta. Gráturinn er spennulosandi og manni líður betur á eftir.

· Að „kveikja á sorginni“, velja sér stund og stað sem hentar. Hlusta á tónlist, skoða myndir og

  leyfa sorginni að hellast yfir sig um stund.

· Að láta gott af sér leiða t.d með því að styrkja gott málefni eða hjálpa öðrum í sömu sporum.

3. Að hvíla sig frá sorginni, dreifa huganum og gera eitthvað allt annað

· Að iðka íþróttir t.d golf, hlaup, hjólreiðar, fjallgöngur, bootcamp.

· Að horfa á sjónvarp/netið eða hlusta á tónlist.

· Að nota húmor/horfa á eitthvað fyndið. Leyfa sér að hlæja. Það losar um spennu og hormón.

· Að halda rútínu og hafa eitthvað fyrir stafni t.d sinna blómum eða gæludýrum.

· Að fá útrás með sköpun t.d semja ljóð, sögu, prjóna, mála, búa til tónlist, spila, syngja.

· Að fara í vinnu þegar þú ert tilbúin/nn. Það hjálpar og þá í vinnuhlutfall sem hentar.

· Að finna áhugamál eða verkefni sem þér líkar, t.d ljósmyndum, koma skipulagi á myndir,

  pappíra, annað.

· Að skipuleggja frídaga fyrirfram: Hafa dagskrá t.d fara í bíó, bíltúr eða matarboð.

· Að setja sér markmið, stór eða smá. Hafa fókus á að komast í gegnum sorgina.

· Að standa með sér og fagna tilfinningum eins og tilhlökkun.

· Að skipuleggja eitthvað skemmtilegt t.d. ferðalag.

· Að þora að stofna til nýrra sambanda.

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira