Lokað frá 23. desember til 3. janúar. Allar pantanir sem berast á þeim tíma verða afgreiddar eftir 3. janúar. Gleðilega hátíð

Góð ráð fyrir syrgjendur

Sorgin kemur yfir okkur eins og öldur. Við erum í lagi eina stundina en alveg niðurbrotin/n þá næstu.  Eigum góðan dag en jafnvel mjög slæman dag daginn eftir. Náum svo mánuði þar sem okkur líður vel en svo kemur annar og þá líður okkur aftur illa. Að því kemur að okkur líður vel í langan tíma í senn.

Þegar við glímum við sorg er miklivægt að fylgja flæði hjarta og hugar og reyna eftir fremsta megni að einfalda líf okkar, fækka streituvöldum dagsins og taka fyrir einn dag í einu.

Leitastu við að:

  • Hugsa vel um sjálfa/n þig, jafnvel þó þér líði illa og finnist það tilgangslaust.
  • Nærast vel og reglulega, þrátt fyrir lystarleysi.
  • Fá góðan svefn/hvíld, þrátt fyrir svefntruflanir og spennu.
  • Hreyfa þig reglulega. Hreyfing og útivist hafa hjálpað mörgum að losa um spennu. Virkjaðu aðra með þér, þó að þig langi e.t.v. helst að vera í einrúmi.
  • Skrifa dagbók. Reyndu þó að þú megnir varla að lyfta blýanti. Dagbókin á eftir að hjálpa þér síðar m.a. til að sjá hverju þú hefur fengið áorkað frá því síðast.
  • Leyfa þér að gráta. Grátur losar um spennu. Það er í lagi að gráta innan um aðra.
  • Leyfa þér að gleðjast. Það er ekki vanvirðing við hinn látna.
  • Leita samskipta við aðra. Félagsleg einangrun eykur á vanlíðan þína. Alls ekki loka á fólk eða slíta sambandi við þína nánustu. Með því særirðu sjálfa/n þig og aðra.
  • Það mun enginn bregðast við þinni sorg á fullkominn hátt. Fólk, jafnvel fólk sem þú elskar, gæti brugðist þér. Margir eiga mjög erfitt með að horfast í augu við sorg annarra og upplifa vanmáttinn sem því fylgir. Vinir sem þú áttir von á að væru þér innan handar eru ekki til staðar og fólk sem þú þekkir varla mun senda þér samúðarkveðjur. Búðu þig undir að þurfa að glíma við sársauka vegna þess hvernig aðrir bregðast við sorg þinni og fyrirgefa þeim.
  • Svara hreinskilningslega ef þú ert spurð(ur) um líðan þína.
  • Nota ekki vímugjafa. Vímugjafar fresta því að þú takist á við tilfinningar þínar.
  • Æfa þig í að leita stuðnings og hjálpar. Mundu að þú berð sjálf(ur) ábyrgð á eigin líðan. Það er í lagi að þarfnast fólks og biðja um aðstoð.
  • Að horfast í augu við sorgina. Það er betra en að hundsa hana. Ekki fela þig fyrir sársaukanum. Ef þú gerir það mun sorgin verða enn sárari en ella og hætta er á að þú eigir erfiða tíma framundan.
  • Spyrja réttra spurninga. Spurningin ,,hvers vegna?“ mun koma í huga þinn. Þú færð sennilega aldrei svar við þeirri spurningu. Það getur verið hjálplegra að spyrja ,,hvernig?“ Hvernig get ég lifað mínu lífi til fullnustu og heiðrað minningu þess sem ég missti? Hvernig get ég elskað betur og sýnt öðrum mína væntumþykju, hvernig get ég leyft þessu að breyta mér og þroska mig?
  • Gefa þér góðan tíma í að hugsa um manneskjuna sem þú misstir. Skrifa um hann eða hana, rifja upp allar góðu minningarnar og stundirnar sem þið áttuð saman. Það hjálpar.
  • Þakka sjálfum/sjálfri þér fyrir vel unnin störf. Það er meira en fullt starf að takast á við sorgina.
  • Setja þér það markmið að gera daginn í dag að betri degi en daginn í gær.
  • Gera það sem þér finnst skemmtilegt og mun að þú ert enn lifandi.

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira