Lokað frá 23. desember til 3. janúar. Allar pantanir sem berast á þeim tíma verða afgreiddar eftir 3. janúar. Gleðilega hátíð

Góð ráð um börn og unglinga í sorg

„Barn sem glímir við vanda þarf hlýjan faðm, hlýtt hjarta og galopin eyru en munnurinn má gjarnan vera lítill.“

Orð Sigurðar Pálssonar, prests í Halllgrímskirkju

Þegar ástvinur deyr

  • Að fá að sjá hinn látna getur verið mikilvægt og gagnlegt fyrir barn/ungling sem missir ástvin. Það gefur þeim tækifæri til að kveðja og hjálpar til við að meðtaka þá staðreynd að ástvinur sé fallinn frá.

Að huga að útför

  • Ef barn/unglingur er aðstandandi er gott að leyfa honum að taka þátt í undirbúningi jarðarfarar. T.d. vera þátttakandi í að velja kistu, hanna  útlit og efni í sálmaskrána.
  • Ef barn er aðstandandi og verður viðstatt útför er mikilvægt að útskýra fyrirfram hvað muni fara fram og hverju það geti átt von á. Hægt er að fá að eiga kyrrðarstund við opna kistu áður en sjálf kistulagningarathöfnin fer fram. Þá geta börn og unglingar kvatt í ró og næði, sett teikningar, bréf eða aðra persónulega muni hjá ástvin.
  • Gott er að sýna ungum börnum fyrirfram hvar þau muni sitja og hvert þeirra hlutverk er ef þau hafa hlutverk í útförinni. Einnig er mikilvægt að ræða hver muni sinna þeim í útförinni ef foreldrar eru ekki í stakk búnir til þess. Þannig eru þau betur undirbúin fyrir ferlið.

Að ræða um dauðann

  • Eyða þarf misskilningi, sé hann til staðar, og gæta vel að orðalagi þegar rætt er um dauðann við börn. Sé t.a.m. talað um að hinn látni hafi sofnað gæti barn óttast að sofna af ótta við að deyja.
  • Einnig hræðast mörg börn sjúkrahús af því að einhver sem þau þekktu dó þar og geta þau litið á sjúkrahúsið sem dánarstað en ekki stað sem veitir lækningu.
    Best er að ræða við börnin og útskýra vel hlutina.

Að sýna erfiðar tilfinningar

  • Börnum getur orðið mikið um að sjá fullorðið fólk gráta, sérstaklega þau sem sýna alltaf styrk. Því er mikilvægt að búa þau undir það að þegar einhver deyr verði fólk sorgmætt og gráti og það sé heilbrigt viðbragð við sorg.
  •  Ef barnið verður vitni að þessum tilfinningum hjá fullorðnum gefur það þeim skilaboð um að þeim sé leyfilegt að tjá sínar eigin tilfinningar með sama hætti og að það sé eðlilegt að gráta og finna til í sorginni.
  • Fullvissa þarf börn um að fullorðna fólkið annist þau þrátt fyrir að þau fullorðnu séu í mikilli sorg.  
  • Barn í sorg þarf að finna að það búi enn við ástúð þeirra sem eftir lifa.

Að halda skipulagi

  • Þó skipulag fari eitthvað úr skorðum er samt mikilvægt að halda því skipulagi sem hægt er að halda. Að hvetja alla til að vakna og fara að sofa á sama tíma og vanalega, búa um rúmið, far út með hundinn o.s.frv.
  • Sorg er ansi orkukrefjandi og því má heldur ekki gleymast að gefa börnum og unglingum  hollan og næringagóðan mat og sjá til þess að þau hvílist vel.
  • Skipulag veitir meira öryggi og vellíðan í erfiðum aðstæðum. Sérstaklega fyrir börn. 

Að gefa snertingu

  • Að sýna hlýju og veita snertingu segir oft meira en þúsund orð. Barn/unglingur sem fær faðmlag veit að hann er elskaður.
  •  Við þurfum samt að vera viðbúin því að barn vísi snertingu frá sér meðan það er að átta sig á tilfinningum sínum. Það á sérstaklega við um unglinga – þeir vilja oft ekki sýna tilfinningar sínar og eru gjarnan hræddir við að missa stjórn á sér.

Að fókusa á núið og það sem hægt er að hafa stjórn á

  • Í sorg verðum við gjarnan upptekin af spurningunni hvað ef ? Það er mikilvægt að aðstoða barnið/unglinginn við að takast á við staðreyndina um ástvinamissinn og því sem ekki er hægt að breyta.
  •  Mikilvægt er að reyna einbeita sér að stað og stund og því sem hægt er að hafa stjórn á.

Að geyma muni

  • Þegar barn/unglingur missir ástvin getur verið mikilvægt að hann fái að hafa hluti eða muni hjá sér sem minna á hinn látna eða voru í eigu hans. Hægt er að spreyja t.d. ilmvatni eða rakspýra hins látna í klút eða einhverja flík og eiga.
  • Ef börn/unglingar missa foreldri láta sumir bræða giftingahringana saman og útbúa men eða annað fyrir barnið eða unglinginn.
  • Gott er að útbúa minningarbók eða minningarkassa með myndum eða munum frá hinum látna fyrir barnið/unglinginn.

Að halda umræðunni á lofti

  • Tilfinningar barna og unglinga í sorg breytast stöðugt. Ef barn/unglingur gefur færi á samtali um missinn haltu þá umræðunni á lofti og reyndu að hvetja það til að ræða tilfinningar sínar.
  • Ekki er víst að barnið/unglingurinn vilji ræða málin þegar hinir fullorðnu vilja það. Því er mikilvægt að vera opin og tilbúin þegar það sýnir merki um að vilja spjalla og gefa sér þá tíma.
  • Ef barnið/unglingurinn kærir sig hinsvegar ekki um umræður reyndu þá að aðstoða við að finna aðra leið til að tjá tilfinningarnar eins og t.d. með teikningum, að skrifa í dagbók, semja tónlist eða annað.

Að vera í samskiptum við fólk

  • Ef við erum í góðum samskiptum við ættingja og vini upplifum við ekki eins mikla einsemd í sorginni.
  • Að tala við einhvern sem er tilbúin til að hlusta og sýna samhygð er mikill stuðningur.
  • Hvettu börnin þín eða unglinginn til að vera í góðum samskiptum og hitta vini sína og ættingja.

Að gleðjast líka í sorginni

  • Þegar við upplifum sorg er oft efitt að leyfa sér að gleðjast yfir einhverju og hafa gaman. Okkur finnst jafnvel eins og það sé óviðeigandi.
  • Það er nauðsynlegt að gera börnum/unglingum grein fyrir því að við getum upplifað margar tilfinningar á sama tíma. Að þau leyfi sér að hlæja og hafa gaman þó þau séu að syrgja ástvin. Það gefur þeim hvíld frá áhyggjum og vanlíðan.

Að vera góð fyrirmynd

  • Ef þú sinnir þínum þörfum og ert að hlúa vel að þér með því að huga að svefn, næringu og öðrum grunnþörfum eru meiri líkur á að barnið/unglingurinn þinn geri það líka.
  • Ef þú ert ófeimin við að ræða sorgina, þiggja aðstoð og huga að andlegri næringu mun það einnig hafa góð áhrif á börn þín og unglinginn.
  • Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og foreldrar eru fyrirmynd í þessu eins og öðru.

Með stuðningi þínum og umhyggju mun barnið/unglingurinn geta unnið sig í gegnum sorgina.

Bækur á íslensku fyrir börn í sorg:

 • Trevor Romain: Hvað í veröldinni gerir maður þegar einhver deyr? Skálholtsútgáfan, 2010. Þessi bók tekur á fjölda spurninga sem börn og unglingar velta oft fyrir sér eftir ástvinamissi.

 • Guðrún Alda Harðardóttir. Það má ekki vera satt. Sagan var fyrst gefin út árið 1983 undir nafninu Þegar pabbi dó.  Hasla, 1983.

Þetta er raunsæ saga um dauðann og lífið, séð frá sjónarhóli sex ára drengs.

 • Astrid Lindgren: Bróðir minn Ljónshjarta. Forlagið, 2012.

Bækur fyrir foreldra/forráðamenn barna í sorg:

• Sigurður Pálsson: Börn og sorg. Skálholtsútgáfan, 1998. Endurútgefin 2021. Sorgarmiðstöð studdi útgáfuna.
Efni bókarinnar stendur vel fyrir sínu og ætlað til leiðsagnar.

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira