Sorg barna

Sorg barna eftir aldri

Sorgarviðbrögð barna og skilningur þeirra á lífi og dauða fara að mestu eftir aldri þeirra.

0-3 ára upplifa börn dauðann sem missi, aðskilnað eða að vera yfirgefin. Þau hafa hins vegar ekki skilning á endanleika dauðans.

3-6 ára börn eru þess fullviss að allt sé tímabundið og hægt sé að færa allt til betri vegar. Hugsun þeirra er draumórafull og þau ímynda sér að hugsanir þeirra og langanir geti leitt til breytinga. Þau geta t.a.m. álitið sig eiga sök á dauða ástvinar en einnig getur þessu verið öfugt farið, þ.e. að þau geta talið að þau geti lífgað einhvern við með því að vera sérlega góð eða óska þess nógu heitt.

6-8 ára börn byrja að skilja endanleika dauðans. Þau sjá hann hins vegar mest sem afleiðingu einhverskonar slysa eða vegna öldrunar. Oft hafa þau mikinn áhuga á atburðarásinni sem leiddi til dauða og velta fyrir sér hvað taki við eftir að fólk deyr.

Eftir 9 ára aldur gera börn sér grein fyrir því að dauðinn táknar endalok og ekki er hægt að snúa frá honum. Þau gera sér grein fyrir því að allir deyja, líka þau sjálf. Á þessum aldri fara börn að sýna fullorðinslegri viðbrögð við missi og sorg.

Sorgarviðbrögð barna

Börn sem verða fyrir áföllum og sorg sýna ekki alltaf dæmigerð sorgarviðbrögð þar sem sorg þeirra er einstök og tengist mjög þroska þeirra. Ungt barn sem verður fyrir missi þarf oft að endurvinna sorgina á nýju þroskastigi. Þess vegna tekur sorgin sig oft upp aftur hjá börnum, jafnvel alveg fram á fullorðinsár.

Sorg barna er því mjög vandmeðfarin og krefst þess að við hin fullorðnu séum undir það búin að hún brjótist fram þegar barnið fæst við krefjandi þroskaverkefni eins og að byrja í skóla og á unglingsárum. Við verðum líka að vera viðbúin því að allar breytingar á högum barna geti hrundið af stað sorgarviðbrögðum og úrvinnslu sorgar.
Börn sem orðið hafa fyrir sorg eða áföllum geta sýnt óeðlilega hegðun, dregist aftur úr í námi og þroska og sýnt ýmis líkamleg einkenni.

Líkamleg einkenni barna í sorg geta verið:

Dofi – það er yfirleitt fyrsta viðbragð við áfalli – að dofna upp. Barninu finnst það ekki geta hreyft sig og öll hugsun virðist stöðvast.
Andþyngsli – barninu finnst eins og hálsinn herpist saman og það geti ekki náð andanum almennilega nema með stunum og andvörpum.
Svefntruflanir – barnið á erfitt með að sofna og vaknar oft á nóttunni, jafnvel grátandi eða ofsahrætt.
Þreyta – svefnerfiðleikar taka sinn toll og sorgin er orkufrek þannig að barnið getur virst síþreytt.
Breyting á matarlyst – barnið er algerlega lystarlaust eða dettur í sælgæti og snakk þótt það hafi ekki lyst á mat.
Magaverkur – barninu finnst vera hnútur í maganum og finnst jafnvel að það þurfi að kasta upp.
Höfuðverkur – barnið kvartar um verki í höfðinu oft framan til og til hliðanna en einnig getur verkurinn lýst sér sem þungi og ljósfælni.
Næturþvaglát – barnið getur farið að pissa undir aftur jafnvel þótt það hafi löngu hætt því.

Verkir – barnið getur fundið til verkja hér og þar um líkamann eða allstaðar.

Tilfinningaleg einkenni barna í sorg geta verið:

Mikið tilfinningalegt uppnám eins og reiði og pirringur án sýnilegs tilefnis.

Aðskilnaðarkvíði – barninu líður illa þegar foreldri eða þeir sem annast það verða að skiljast við það vegna vinnu og skóla.
Hræðsla um að aðrir nákomnir muni einnig deyja – barnið getur fyllst ofsahræðslu um að foreldri þess eða systkini deyi.
Miklar hugsanir um dauðann – barnið veltir sér mikið upp úr hvernig fólk deyr, hvað gerist þegar það deyr og hvað verður um það eftir að það er dáið.
Námsörðugleikar – barnið á erfitt með að einbeita sér og ljúka verkefnum sem fyrir það eru lögð.
Samviskubit – barninu getur fundist það eiga einhverja sök á dauða ástvinar vegna einhvers sem það gerði eða gerði ekki.

Skólakvíði – barnið treystir sér illa til að stunda skólann – m.a. vegna aðskilnaðar frá foreldri og heimili og þess hversu berskjaldað það er í samvistum við skólafélagana og kennarana. Barnið vill e.t.v. helst bara vera í öryggi heimilisins.

Depurð – barnið virðist ekki geta glaðst yfir neinu, finnur ekki upp á neinu að gera og getur setið og horft út í loftið tímunum saman. Það bregst ennfremur illa við öllum tilraunum til samneytis.

Hegðunarleg einkenni barna í sorg geta verið:

Öll þessi viðbrögð geta verið eðlileg og þau geta komið upp á mismunandi tímum í þroskaferli barnsins, staðið mislengi og gengið í bylgjum.

Afturhvarf í þroska – barnið getur farið að tala barnamál aftur eða pissa í buxurnar.
Tilfinningalegt ofurnæmi – minnstu atriði, eins og að sjá annað barn skammað, geta komið barninu til að gráta eða verða hrætt.

Stælar – barnið felur tilfinningar sínar bak við erfiða framkomu, rífur kjaft við kennara og aðra sem reyna að nálgast það eða stjórna því.

Skapofsaköst – barnið bregst illa við boðum og bönnum og getur þá öskrað eða jafnvel skemmt hluti og meitt einhvern.

Áhugaleysi – barnið sýnir engan áhuga á fólki, áhugmálum eða félagslegum athöfnum sem það tók þátt í áður.

Athyglisþörf – barnið hangir utan í foreldri og kennurum og tekur upp á ýmsu til að fá athygli þeirra og annarra í kringum sig, t.d. með því að trufla kennslu kennara, símtöl foreldra o.fl.

Hræðsla við einveru – barnið getur t.a.m. ekki verið eitt heima, jafnvel þótt það sé orðið stálpað og hafi getað verið eitt heima áður en það varð fyrir missi.

Afbrot, s.s. að stela – barnið fyllist spennu við að brjóta af sér og finnur þannig tilfinningu fyrir lífinu sem því tekst e.t.v. ekki með öðru móti. Oft er þar undirliggjandi ósk um að það náist til að það fái meiri athygli.

Óeðlileg sorg barna

Þótt flest viðbrögð og hegðun séu eðlileg þegar barn hefur orðið fyrir áfalli og missi megum við ekki skella öllum útskýringum á líðan og hegðun barna á sorgina. Ef barn sem hefur orðið fyrir áfalli nær ekki að vinna úr sorg sinni festist það í sorgarferlinu og við tekur óeðlilegt ástand sem getur endað í mikilli sálrænni kreppu. Viðbrögð eins og magapína eða andarteppa geta líka átt sér líkamlega skýringu sem ekki tengist sorginni og barnið getur þurft á læknismeðferð að halda.

Sýni börn yfirdrifin sorgareinkenni í langan tíma er ástæða að ætla að þau ráði ekki við úrvinnslu sorgarinnar og þurfi faglega aðstoð.

Hvernig hjálpum við barni í sorg?

Orð Sigurðar Pálssonar, prests í Halllgrímskirkju, eiga vel við um viðbrögð við sorg barna:

„Barn sem glímir við vanda þarf hlýjan faðm, hlýtt hjarta og galopin eyru en munnurinn má gjarnan vera lítill“

 

Þegar ástvinur deyr

  • Að fá að sjá hinn látna getur verið mikilvægt og gagnlegt fyrir barn/ungling sem missir ástvin. Það gefur þeim tækifæri til að kveðja og hjálpar til við að meðtaka þá staðreynd að ástvinur sé fallinn frá.

Að huga að útför

  • Ef barn/unglingur er aðstandandi er gott að leyfa honum að taka þátt í undirbúningi jarðarfarar. T.d. vera þátttakandi í að velja kistu, hanna  útlit og efni í sálmaskrána.
  • Ef barn er aðstandandi og verður viðstatt útför er mikilvægt að útskýra fyrirfram hvað muni fara fram og hverju það geti átt von á. Hægt er að fá að eiga kyrrðarstund við opna kistu áður en sjálf kistulagningarathöfnin fer fram. Þá geta börn og unglingar kvatt í ró og næði, sett teikningar, bréf eða aðra persónulega muni hjá ástvin.
  • Gott er að sýna ungum börnum fyrirfram hvar þau muni sitja og hvert þeirra hlutverk er ef þau hafa hlutverk í útförinni. Einnig er mikilvægt að ræða hver muni sinna þeim í útförinni ef foreldrar eru ekki í stakk búnir til þess. Þannig eru þau betur undirbúin fyrir ferlið.

Að ræða um dauðann

  • Eyða þarf misskilningi, sé hann til staðar, og gæta vel að orðalagi þegar rætt er um dauðann við börn. Sé t.a.m. talað um að hinn látni hafi sofnað gæti barn óttast að sofna af ótta við að deyja.
  • Einnig hræðast mörg börn sjúkrahús af því að einhver sem þau þekktu dó þar og geta þau litið á sjúkrahúsið sem dánarstað en ekki stað sem veitir lækningu.
    Best er að ræða við börnin og útskýra vel hlutina.

Að sýna erfiðar tilfinningar

  • Börnum getur orðið mikið um að sjá fullorðið fólk gráta, sérstaklega þau sem sýna alltaf styrk. Því er mikilvægt að búa þau undir það að þegar einhver deyr verði fólk sorgmætt og gráti og það sé heilbrigt viðbragð við sorg.
  •  Ef barnið verður vitni að þessum tilfinningum hjá fullorðnum gefur það þeim skilaboð um að þeim sé leyfilegt að tjá sínar eigin tilfinningar með sama hætti og að það sé eðlilegt að gráta og finna til í sorginni.
  • Fullvissa þarf börn um að fullorðna fólkið annist þau þrátt fyrir að þau fullorðnu séu í mikilli sorg.  
  • Barn í sorg þarf að finna að það búi enn við ástúð þeirra sem eftir lifa.

Að halda skipulagi

  • Þó skipulag fari eitthvað úr skorðum er samt mikilvægt að halda því skipulagi sem hægt er að halda. Að hvetja alla til að vakna og fara að sofa á sama tíma og vanalega, búa um rúmið, far út með hundinn o.s.frv.
  • Sorg er ansi orkukrefjandi og því má heldur ekki gleymast að gefa börnum og unglingum  hollan og næringagóðan mat og sjá til þess að þau hvílist vel.
  • Skipulag veitir meira öryggi og vellíðan í erfiðum aðstæðum. Sérstaklega fyrir börn. 

Að gefa snertingu

  • Að sýna hlýju og veita snertingu segir oft meira en þúsund orð. Barn/unglingur sem fær faðmlag veit að hann er elskaður.
  •  Við þurfum samt að vera viðbúin því að barn vísi snertingu frá sér meðan það er að átta sig á tilfinningum sínum. Það á sérstaklega við um unglinga – þeir vilja oft ekki sýna tilfinningar sínar og eru gjarnan hræddir við að missa stjórn á sér.

Að fókusa á núið og það sem hægt er að hafa stjórn á

  • Í sorg verðum við gjarnan upptekin af spurningunni hvað ef ? Það er mikilvægt að aðstoða barnið/unglinginn við að takast á við staðreyndina um ástvinamissinn og því sem ekki er hægt að breyta.
  •  Mikilvægt er að reyna einbeita sér að stað og stund og því sem hægt er að hafa stjórn á.

Að geyma muni

  • Þegar barn/unglingur missir ástvin getur verið mikilvægt að hann fái að hafa hluti eða muni hjá sér sem minna á hinn látna eða voru í eigu hans. Hægt er að spreyja t.d. ilmvatni eða rakspýra hins látna í klút eða einhverja flík og eiga.
  • Ef börn/unglingar missa foreldri láta sumir bræða giftingahringana saman og útbúa men eða annað fyrir barnið eða unglinginn.
  • Gott er að útbúa minningarbók eða minningarkassa með myndum eða munum frá hinum látna fyrir barnið/unglinginn.

Að halda umræðunni á lofti

  • Tilfinningar barna og unglinga í sorg breytast stöðugt. Ef barn/unglingur gefur færi á samtali um missinn haltu þá umræðunni á lofti og reyndu að hvetja það til að ræða tilfinningar sínar.
  • Ekki er víst að barnið/unglingurinn vilji ræða málin þegar hinir fullorðnu vilja það. Því er mikilvægt að vera opin og tilbúin þegar það sýnir merki um að vilja spjalla og gefa sér þá tíma.
  • Ef barnið/unglingurinn kærir sig hinsvegar ekki um umræður reyndu þá að aðstoða við að finna aðra leið til að tjá tilfinningarnar eins og t.d. með teikningum, að skrifa í dagbók, semja tónlist eða annað.

Að vera í samskiptum við fólk

  • Ef við erum í góðum samskiptum við ættingja og vini upplifum við ekki eins mikla einsemd í sorginni.
  • Að tala við einhvern sem er tilbúin til að hlusta og sýna samhygð er mikill stuðningur.
  • Hvettu börnin þín eða unglinginn til að vera í góðum samskiptum og hitta vini sína og ættingja.

Að gleðjast líka í sorginni

  • Þegar við upplifum sorg er oft efitt að leyfa sér að gleðjast yfir einhverju og hafa gaman. Okkur finnst jafnvel eins og það sé óviðeigandi.
  • Það er nauðsynlegt að gera börnum/unglingum grein fyrir því að við getum upplifað margar tilfinningar á sama tíma. Að þau leyfi sér að hlæja og hafa gaman þó þau séu að syrgja ástvin. Það gefur þeim hvíld frá áhyggjum og vanlíðan.

Að vera góð fyrirmynd

  • Ef þú sinnir þínum þörfum og ert að hlúa vel að þér með því að huga að svefn, næringu og öðrum grunnþörfum eru meiri líkur á að barnið/unglingurinn þinn geri það líka.
  • Ef þú ert ófeimin við að ræða sorgina, þiggja aðstoð og huga að andlegri næringu mun það einnig hafa góð áhrif á börn þín og unglinginn.
  • Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og foreldrar eru fyrirmynd í þessu eins og öðru.

Með stuðningi þínum og umhyggju mun barnið/unglingurinn geta unnið sig í gegnum sorgina.

 

 

Bækur á íslensku fyrir börn í sorg:

 • Trevor Romain: Hvað í veröldinni gerir maður þegar einhver deyr? Skálholtsútgáfan, 2010. Þessi bók tekur á fjölda spurninga sem börn og unglingar velta oft fyrir sér eftir ástvinamissi.

 • Guðrún Alda Harðardóttir. Það má ekki vera satt. Sagan var fyrst gefin út árið 1983 undir nafninu Þegar pabbi dó.  Hasla, 1983.

Þetta er raunsæ saga um dauðann og lífið, séð frá sjónarhóli sex ára drengs.

 • Astrid Lindgren: Bróðir minn Ljónshjarta. Forlagið, 2012.

 

Bækur fyrir foreldra/forráðamenn barna í sorg:

• Sigurður Pálsson: Börn og sorg. Skálholtsútgáfan, 1998. Endurútgefin 2021. Sorgarmiðstöð studdi útgáfuna.
Efni bókarinnar stendur vel fyrir sínu og ætlað til leiðsagnar.

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira