Saga Sorgarmiðstöðvar

Hvers vegna Sorgarmiðstöð?

Þann 5. nóvember 2018 undrirrituðu fjögur grasrótarfélög á sviði sorgarúrvinnslu viljayfirlýsingu um stofnun Sorgarmiðstöðvar. Félögin eru: Ný dögun kt. 441091-1689, Birta kt. 670514-1610, Ljónshjarta kt. 601213- 0950 og Gleym mér ei kt. 501013-1290.

Upphafið má rekja til vinnufundar í mars 2017 sem Ný dögun hélt í tilefni þess að 30 ár voru liðin frá upphafi starfseminnar árið 1987. Yfirskrift vinnufundarins var: „Hvað getum við gert betur í þjónustu við syrgjendur á Íslandi?“

Á #gerumbetur-fundinum komu saman 28 manns sem störfuðu með einum eða öðrum hætti með syrgjendum, ýmist úr heilbrigðisstéttum, frá lögreglu, Þjóðkirkjunni og áðurnefndum grasrótarfélögum. Fundurinn skilaði þeirri eindregnu niðurstöðu að bæta þyrfti þjónustu við syrgjendur af því sú aðstoð sem byðist væri of dreifð, ómarkviss og af ýmsu tagi. Æskilegast væri að koma upp miðstöð þar sem syrgjendur og aðrir gætu gengið að upplýsingum og þjónustu á einum stað, með símtali, heimsókn eða á vefsíðu. Þá kom vel fram það sjónarmið að stuðningur við syrgjendur ætti að falla undir „lýðheilsustarf“ sem sjálfsagður liður í heilsueflingu samfélagsins. Sorgarúrvinnsla miðar að því að efla og styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks eftir ástvinamissi.

Félögin fjögur ákváðu að vinna áfram með niðurstöðu fundarins. Í nóvember 2018 var búið að vinna samþykktir fyrir Sorgarmiðstöð og fá kennitölu. Sótt var um styrk til velferðarráðuneytisins til að koma starfseminni á fót og fengust alls 2.5 mkr frá félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti.

Á árinu 2019 var unnið að gerð heimasíðu og leitað að samastað fyrir Sorgarmiðstöð. Á sama ári var Hafnarfjarðarbær að koma á fót Lífsgæðasetri í fyrrum St. Jósefsspítala og leitaði stjórn Sorgarmiðstöðvar til bæjarins um samstarf við að koma Sorgarmiðstöð á fót í aðstöðunni.

Þann 11. september var undirritaður samstarfssamningur milli Hafnarfjarðarbæjar og Sorgarmiðstöðvar um aðstöðu í Lífsgæðasetri St. Jó.

12. september árið 2019 tók Sorgarmiðstöð svo formlega til starfa í Lífsgæðasetri St. Jó. í Hafnarfirði um leið og heimasíða var opnuð.

 

Merki Sorgarmiðstöðvar



Merki Sorgarmiðstöðvarinnar er hannað af Bjarka Lúðvíkssyni hjá Hvíta húsinu. Innblásturinn sækir Bjarki í sorgarferilinn. Línan táknar leiðina að uppbyggingu sem myndar hjartatáknið. Einnig má sjá í merkinu tvær manneskjur tala saman um hjartans mál.

 

Sorgartré Sorgarmiðstöðvar

Tendrað er á sorgartrjánum upphafi aðventu hvers árs og lýsa þau hlýrri, rauðri birtu.

Hugmyndin með Sorgartrénu er að öll þau sem hafa misst ástvin geti sest undir tréð, gefið sér tíma og minnst ástvina sinna sem fallin eru frá. Jólin og aðventan geta verið syrgjendum mjög erfiður og ljúfsár tími. Sorgartrénu er líka ætlað að vekja athygli samfélagsins á stöðu syrgjenda sem eiga um sárt að binda á þessum tíma árs.

Sorgartrén eru núna  tvö, eitt er staðsett í Hellisgerði og eitt í Lystigarðinum Akureyri. Með tilkomu trjánna er hægt að bjóða upp á hugljúfan og fallegan stað sem hefur að geyma birtu og hlýju til syrgjenda.

Stundum komumst við ekki að leiði ástvina vegna fjarlægðar og því getur verið gott að hafa fleiri staði í nærumhverfi til að eiga stund með sjálfum okkur og minningunum um fólkið okkar. Það mætti segja að Sorgartrén þrífist á minningunum og dafni með þeim.

Hellisgerði og Lystigarðurinn eru báðir fallegir og töfrandi staðir og tilvaldir til að halda utan um sorgartré okkar allra.  

Lystigarðurinn á Akureyri biður fólk um að passa plöntur undir trénu.

Heiðursbolli Sorgarmiðstöðvar

Sorgarmiðstöð veitir árlega viðurkenningu til þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum í þágu syrgjenda á Íslandi. Viðurkenninginn er í formi Heiðursbolla sem unnin er af Kristínu Sigfríði Garðarsdóttur keramikhönnuði.

Með viðurkenningu þessari vill Sorgarmiðstöð þakka gott framlag í þágu syrgjenda og fyrir að vekja athygli á málstaðnum og mikilvægi sorgarúrvinnslu sem lið í eflingu lýðheilsu samfélagsins.

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira