Þann 5. nóvember 2018 undrirrituðu fjögur grasrótarfélög á sviði sorgarúrvinnslu viljayfirlýsingu um stofnun Sorgarmiðstöðvar. Félögin eru: Ný dögun kt. 441091-1689, Birta kt. 670514-1610, Ljónshjarta kt. 601213- 0950 og Gleym mér ei kt. 501013-1290.
Upphafið má rekja til vinnufundar í mars 2017 sem Ný dögun hélt í tilefni þess að 30 ár voru liðin frá upphafi starfseminnar árið 1987. Yfirskrift vinnufundarins var: „Hvað getum við gert betur í þjónustu við syrgjendur á Íslandi?“
Á #gerumbetur-fundinum komu saman 28 manns sem störfuðu með einum eða öðrum hætti með syrgjendum, ýmist úr heilbrigðisstéttum, frá lögreglu, Þjóðkirkjunni og áðurnefndum grasrótarfélögum. Fundurinn skilaði þeirri eindregnu niðurstöðu að bæta þyrfti þjónustu við syrgjendur af því sú aðstoð sem byðist væri of dreifð, ómarkviss og af ýmsu tagi. Æskilegast væri að koma upp miðstöð þar sem syrgjendur og aðrir gætu gengið að upplýsingum og þjónustu á einum stað, með símtali, heimsókn eða á vefsíðu. Þá kom vel fram það sjónarmið að stuðningur við syrgjendur ætti að falla undir „lýðheilsustarf“ sem sjálfsagður liður í heilsueflingu samfélagsins. Sorgarúrvinnsla miðar að því að efla og styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks eftir ástvinamissi.
Félögin fjögur ákváðu að vinna áfram með niðurstöðu fundarins. Í nóvember 2018 var búið að vinna samþykktir fyrir Sorgarmiðstöð og fá kennitölu. Sótt var um styrk til velferðarráðuneytisins til að koma starfseminni á fót og fengust alls 2.5 mkr frá félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti.
Á árinu 2019 var unnið að gerð heimasíðu og leitað að samastað fyrir Sorgarmiðstöð. Á sama ári var Hafnarfjarðarbær að koma á fót Lífsgæðasetri í fyrrum St. Jósefsspítala og leitaði stjórn Sorgarmiðstöðvar til bæjarins um samstarf við að koma Sorgarmiðstöð á fót í aðstöðunni.
Þann 11. september var undirritaður samstarfssamningur milli Hafnarfjarðarbæjar og Sorgarmiðstöðvar um aðstöðu í Lífsgæðasetri St. Jó.
12. september 2019 tók Sorgarmiðstöð svo formlega til starfa í Lífsgæðasetri St. Jó. í Hafnarfirði um leið og heimasíðan var opnuð.
LÍFSGÆÐASETUR Í ST. JÓ
SUÐURGATA 41, 220 HAFNARFJÖRÐUR
sorgarmidstod@sorgarmidstod.is
Sími: 551 4141
Kennitala: 521118-0400
Reikningsnúmer: 0513-26-009753
Landlæknisembættið er verndari Sorgarmiðstöðvar