Hjálp 48

Hjálp48 verkefni Sorgarmiðstöðvar hefur það að markmiði að grípa aðstandendur eftir skyndilegan ástvinamissi og veita þeim viðeigandi stuðning og eftirfylgni.  Þjónustan verður til að byrja með fyrir þau sem missa í sjálfsvígi en mun svo færast yfir á annan skyndilegan og ótímabæran missi.

Undirbúningsvinna og mótun verkefnis hófst árið 2021 en þá hafði Sorgarmiðstöð fundið sterkt ákall frá syrgjendum eftir þessari þjónustu.  Þau sem missa skyndilega upplifa mörg að fá ekki viðeigandi stuðning og þjónustu. Haldin var vinnustofa með aðstandendum sem misst höfðu í sjálfsvígi, þar sem spurt var „Hvað hefðir þú viljað sjá?“  Árið 2022 var fyrsta verkefnisáætlunin unnin í samstarfi við nemendahópi í MPM við HR og kennimerki útbúið.  Einnig hélt Sorgarmiðstöð ráðstefnu um skyndilegan missi með þátttöku fjölmargra viðbragðsaðila og annarra hagsmunaaðila. Árið 2024 var ráðinn verkefnastjóri og ákveðið að þjónustan yrði fyrst innleidd og prófuð á Akureyri.  Í September 2025 voru tveir kennsludagar þar sem Hjálp48 teymið var þjálfað.  Þjónustan er því komin í gang á Akureyri og teymið hefur þegar hafið störf.  Eitt það mikilvægasta við þjónustuna er góð tenging og samvinna við viðbragðsaðila, presta og aðra sem koma að þjónustu við aðstandendur og syrgjendur.  Mjög vel hefur gegnið að skapa þessa tengingu á Akureyri og er Sorgarmiðstöð einstaklega þakklát fyrir þær góðu móttökur sem verkefnið hefur fengið hjá öllum sem rætt hefur verið við. 

Næstu skref í verkefninu eru að undirbúa innleiðingu á fleiri stöðum á landinu.

Þeir sem vilja styrkja verkefnið er bent á söfnunarreikning Sorgarmiðstöðvar en hægt er að skrifa „H48“ í athugasemd við millifærsluna.

Styrktarreikningur Sorgarmiðstöðvar

Reikningsnúmer: 0513-26-009753

Kennitala: 521118-0400

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira