Í LJÓSI AÐSTÆÐNA ÞURFUM VIÐ ÞVÍ MIÐUR AÐ FRESTA GÖNGUNNI
Gönguhópur Sorgarmiðstöðvar SKREF FYRIR SKREF býður upp á skipulagðar göngur fyrsta þriðjudag í mánuði.
Þegar við upplifum áfall eins og ástvinamissi er flestum hjálplegt að komast í kynni við og hitta aðra sem eru í sömu sporum, finna skilning og stuðning þeirra sem deila reynslu. Það er sumt sem getur hjálpað okkur til að líða betur eins og hreyfing og útivist. Að nýta náttúruna og útiveru gefur okkur orku og losar um spennu. Göngur eru því hjálplegar þegar við tökum skrefin framávið í sorgarferlinu.
Önnur ganga gönguhópsins verður í Búrfellsgjá sem er skemmtileg og þægileg gönguleið sem sýnir okkur hversu fallegan svip jarðhræringar setja á náttúru okkar.
Til að komast á upphafsstað göngunnar er keyrt upp hjá Vífilstöðum og beygt til hægri þegar komið er að Vífilstaðavatni. Áfram er keyrt þangað til kemur skilti á vinstri hönd sem stendur á Heiðmörk. Heiðmerkurvegur (408) er ekinn meðfram Vífilsstaðahlíð malbikið á enda og tæplega 1 km lengra. Þá birtist bílaplanið en á því er skilti sem á stendur Selgjá. Lagt verður af stað þaðan kl.17.
Gangan tekur rúmlega 1 klst.
Guðrún Jóna leiðir gönguna.