Það er nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðið til að tryggja þátttöku
Skráning – FULLT
Námskeið fyrir börn og unglinga sem misst hafa ástvin hefst 18. febrúar.
Það er nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðið til að tryggja þátttöku.
Námskeiðið er tvær helgar dagana:
18. og 19. febrúar
4. og 5. mars.
Aldur: 6-15 ára
Tímasetning: 11:00-14:00. Boðið er uppá hádegishressingu.
Fyrsta dag námskeiðs (18. febrúar) er óskað eftir að foreldrar/forráðamenn séu með í byrjun frá 11:00-12:00. Kl. 12:00 er foreldrum/forráðamönnum boðið á fræðsluna ,,Að styðja barn/ungling í sorg“
Foreldrum er frjálst að vera áfram í húsi eftir fræðsluna.
Námskeiðið er í boði Sorgarmiðstöðvar og þarf einungis að greiða staðfestingargjald. Upplýsingar um greiðslu staðfestingagjalds verða sendar í tölvupósti til þeirra sem hafa skráð barn/ungling á námskeiðið.
Að missa náinn ástvin er án efa eitthvert mesta áfall sem barn eða ungmenni getur orðið fyrir. Oft fylgir slík reynsla þeim ævina á enda. Það er því nauðsynlegt að vinna vel úr missinum svo áfallið verði ekki hamlandi seinna meir. Fagleg aðstoð, fjölskyldan, vinir og að hitta aðra krakka eða unglinga með sömu reynslu er oft mikil hjálp.
Nánari lýsing á námskeiðinu:
Á námsskeiðinu fá allir tækifæri til að upplifa og tjá sig í gegnum leik og verkefni í öruggu og styðjandi umhverfi. Námskeiðið stuðlar að jákvæðri uppbyggingu þar sem við skoðum ýmis bjargráð og verður unnið sérstaklega með eftirfarandi þætti: Sjálfstraust, hugrekki, samskipti, líðan, jákvæða reynslu, samkennd, tjáningu, samvinnu o.fl.
Hópunum er aldursskipt og er lögð áhersla á að mæta þörfum hópsins og hvers og eins innan hans.
Ína Lóa Sigurðardóttir starfar sem framkvæmdastjóri Sorgarmiðstöðvar en er einnig með stuðningshópastörf, samtöl, fyrirlestra o.fl. mun stýra þessu námskeiði barna og unglinga. Ína Lóa er kennari að mennt og með 10 ára reynslu að baki sem umsjónarkennari á yngsta og miðstigi. Hún hefur lært hugræna atferlismeðferð, er markþjálfi og tekið ýmis námskeið er varðar áföll og sorg barna. Hún er einn af stofnendum Ljónshjarta og var þar formaður fyrstu 6 árin. Hún er einnig einn af stofnendum Sorgarmiðstöðvar og sat í fyrstu stjórn miðstöðvarinnar. Ína Lóa er hugmyndasmiður og einn af höfundum fræðsluþáttana MISSIR sem sýndir eru á sjónvarpi Símans. Ína missti fyrsta barna á miðri meðgöngu árið 2002 og eiginmann eftir langvarandi veikindi árið 2012 frá tveimur börnum 5 og 9 ára.
Ása Dröfn Fox Björnsdóttir er grunnskólakennari og starfar á miðstigi og unglingastigi. Hún mun stýra námskeiðinu með Ínu. Hún er með BS í viðskiptafræði, BA í sálfræði, kennararéttindi og masterseiningar í sálrænum áföllum og ofbeldi (Heilbrigðisvísindasviði). Lengst af starfaði Ása sem millistjórnandi en síðustu ár sem kennari og þar áður starfaði hún með heimilislausum konum með geðfötlun og glíma við fjölþættan vanda. Ása Dröfn missti eiginmann sinn árið 2011 skyndilega frá þremur börnum sem þá voru 3 ára (tvíburar) og 14 ára.
Ína og Ása sjá einnig saman um erindið „Börn í sorg og skólasamfélagið“ en það er fræðsluerindi um sorg og sorgarviðbrögð barna sem flutt er í grunnskólum og leikskólum landsins. Markmiðið er að styrkja skólasamfélagið í vinnu sinni með börnum í sorg.
Selma Lind Árnadóttir er 19 ára gömul og hefur lokið námi frá Verslunarskóla Íslands. Hún hefur lokið hópstjóraþjálfun hjá Sorgarmiðstöð og einnig útskrifast sem jafningi hjá Sorgarmiðstöð. Selma Lind var viðmælandi í sjónvarpsþáttunum MISSIR og ræddi þar reynslu sína af foreldramissir en hún missti föður sinn 9 ára gömul. Selma Lind er sjálfboðaliði á námskeiðinu og aðstoðar eftir þörfum.