Tendrað verður á Sorgartrénu í Hellisgerði sunnudaginn 7. desember.
Viðburðurinn hefst í Lífsgæðasetrinu St. Jó, Hafnarfirði, kl. 17:30, þar sem við förum með nokkur orð um jólin og sorgina og hægt verður að kaupa kerti til að ganga með.
Síðan göngum við saman í hlýju minningarljósi stuttan spöl í átt að Hellisgerði þar sem kveikt verður á Sorgatrénu við fallega athöfn en dagskráin í Hellisgerði byrjar kl. 18.
Kór Hafnarfjarðarkirkju mun syngja, jólasveinar gefa börnum glaðning og Sydhavn kaffihús í Hellisgerði ætlar að gefa 30 prósent af hverjum seldum kakóbolla þennan daginn til Sorgarmiðstöðvar.
Hugmyndin með Sorgartrénu er að öll þau sem hafa misst ástvin geti sest undir tréð og minnst þeirra sem fallin eru frá, á þessum ljúfsára tíma sem jólin eru fyrir syrgjendur. Sorgartrénu er einnig ætlað að vekja athygli á stöðu syrgjenda sem eiga um sárt að binda á þessum tíma árs. Öll eru því velkomin, hvort sem þau vilji sýna stuðning eða vilji minnast.