Ýmis réttindi​

Upplýsingar þessar eru ekki tæmandi taldar og ná ekki til réttinda sem eftirlifandi maki gæti átt rétt á vegna barna. Athygli er vakin á því að upplýsingar sem hér eru raktar um réttindi eru einungis til hægðarauka og upplýsinga. Því er mikilvægt fyrir einstaklinga að leita til viðkomandi stofnana eða lífeyrissjóða. Þá er rétt að árétta að réttindi eða úrræði sem hér er fjallað um geta breyst frá einum tíma til annars.

Mikilvægt er fyrir hjón/sambúðarfólk að taka samtalið og gera tékklista

Fjárhagslegar áhyggjur er oft fylgifiskur sorgarferlis og er mikilvægt að huga að þeim fjárhagslegu björgunarnetum sem eru til staðar til að grípa eftirlifandi maka. Það er ekki óalgengt að eftirlifandi maki sé ekki upplýstur um réttindi, hafi hvorki þrek til að leita eftir aðstoð né sækja um það sem hann á rétt á. Verða einstaklingar því oft af töluverðum fjárhagslegum réttindum. 

Hjón/sambúðarfólk óháð aldri ættu að setjast niður og ræða hvaða fjárhagslega björgunarnet taki við falli annar hvor einstaklingurinn í hjónabandinu/sambúðinni frá og gera sameiginlegan tékklista. Að gera erfðaskrá er tryggast en það er ekki umfjöllunarefnið hér.

 

Réttindin get legið á mörgum mismunandi stöðum og tékklisti getur auðveldað eftirlifandi maka að fóta sig í frumskógi réttinda á sama tíma og hann er að ganga í gegnum erfitt sorgarferli.  

 

Fjárhagslega björgunarnetið getur verið til staðar hjá lífeyrissjóði hins látna, stéttarfélagi, vátryggingafélagi, sveitarfélaginu þeirra, opinberum stofnunum o.s.frv. Þá er mikilvægt að athuga hvort hinn látni eigi réttindi samkvæmt þeim kjarasamningi sem hann starfaði eftir en þar gæti skipt máli hvernig andlàtið bar að garði.

 

 

 

 

 

 

 

2024

Tékklisti

 

 

 

 

Hvaða
réttindi eða úrræði

Hjá
hverjum liggja úrræðin/réttindin

 

MAKALÍFEYRIR MEÐ  FRAMREIKNINGI

LÍFEYRISSJÓÐUR HINS LÁTNA EINSTAKLINGS

 

SÉREIGNASPARNAÐUR

LÍFEYRISSJÓÐUR EÐA BANKI

 

TILGREIND SÉREIGN

LÍFEYRISSJÓÐUR EÐA BANKI

 

LAUSNARLAUN SAMKVÆMT KJARASAMNINGI

LAUNAGREIÐANDI  HINS
LÁTNA EINSTAKLINGS

 

UPPGERT ÁUNNIÐ ORLOF O.FL.

LAUNAGREIÐANDI HINS LÁTNA EINSTAKLINGS

 

ÚTFARARSTYRKUR OG EÐA DÁNARBÆTUR

LEITA TIL STÉTTARFÉLAGS HINS LÁTNA STÉTTARFÉLAGS

 

SLYSATRYGGINGAR SKV. KJARASAMNINGI

LEITA TIL STÉTTARFÉLAGS
HINS LÁTNA STÉTTARFÉLAGS

 

NÝTA PERSÓNUAFSLÁTT HINS LÁTNA

 SKATTURINN

 

LÆKKUN Á TEKJUSKATTSSTOFNI

 SKATTURINN

 

DÁNARBÆTUR

 TRYGGINGASTOFNUN

 

AFSLÁTTUR Á FASTEIGNAGJÖLDUM OG ÚTSVARI

SVEITARFÉLAG

 

LÍFTRYGGINGAR

  VÁTRYGGINGAFÉLAG

 Réttindi samkvæmt  KJARASAMNINGUM HINS LÁTNA

Við makamissi er mikilvægt að athuga hvort hinn látni eigi réttindi samkvæmt þeim kjarasamningi sem hann starfaði eftir. Ef eftirlifandi maki er ekki viss um í hvaða stéttarfélagi hinn látni var, þá er hægt að fá þær upplýsingar á launaseðli hins látna.

Mikilvægt að mannauðsstjórar eða þeir aðilar sem sjá um launagreiðslur tryggi að eftirlifandi maki starfsmanns sem fellur frá fái upplýsingar um þann rétt sem hann á rétt á frá launagreiðanda. Stéttarfélag hins látna getur jafnframt veitt upplýsingar um réttindi samkvæmt kjarasamningi.

Kjarasamningar sem hinn làtni starfaði eftir geta tryggt eftirlifandi maka ýmsar greiðslur eða styrki en það er misjafnt eftir kjarasamningum stéttarfélaga hvaða réttindi eru tryggð.

  • Fyrst má nefna svokölluð lausnarlaun í þrjá mánuði skv kjarasamningi. Launin eru föst laun sem hinn làtni hafði og síðan er gert upp áunnið orlof, hlutdeild í desemberuppbót, orlofsuppbót o.s.frv.
  • Í öðru lagi bjóða sum stéttarfélög upp á útfararstyrk og/eða dánarbætur.
  • Í þriðja lagi er kveðið á um slysatryggingar í kjarasamningum, en hafi andlát borið að vegna slyss þarf að skoða slysatryggingar samkvæmt kjarasamningi.
 

Tryggingastofnun

Við andlát maka er mikilvægt að nýta þau réttindi eða úrræði sem opinberar stofnanir eins og Tryggingastofnun bjóða upp vegna andláts maka. Mismunandi úrræði eru eftir því hvort eftirlifandi maki er innan 67 ára aldurs eða lífeyrisþegi. Mikilvægt er að leita til Tryggingastofnunar til að fá frekari upplýsingar um þessi úrræði eða mögulega önnur úrræði sem eru í boði hjá stofnuninni.

Eftirlifandi maki er innan 67 ára aldurs:

  • Dánarbætur greiðast í sex mánuði þeim sem verða ekkjur/ekklar innan 67 ára aldurs. Skilyrði er að viðkomandi hafi verið í hjúskap við hinn látna eða í skráðri, óvígðri sambúð í eitt ár eða lengur við andlátið. Dánarbætur eru ekki tekjutengdar. 
  • Við ákveðnar aðstæður eins og t.d ef fjárhags- og félagslegar aðstæður eftirlifandi maka eru mjög slæmar getur hann sótt um framlengingu dánarbóta. Framlengdar dánarbætur eru afgreiddar í 12 mánuði í senn.

Eftirlifandi maki er lífeyrisþegi:

  • Ef eftirlifandi maki er lífeyrisþegi þarf hann að senda inn nýja tekjuáætlun og greina TR frá breytingum á tekjum sínum.
  • Viðkomandi þarf að sækja um heimilisuppbót ef hann býr einn. Heimilisuppbót er greidd eftirlifandi maka sem er einn um heimilisrekstur og nýtur örorku- eða endurhæfingarlífeyris og tekjutryggingar. Ef eftirlifandi maki er ellilífeyrisþegi getur hann átt rétt á heimilisuppbót.

Barnalífeyrir greiðist ef hinn látni á börn yngri en 18 ára og til 20 ára ef um er að ræða ungmenni sem er í námi. Geiðist þá upphæðin beint til ungmennis. Barnalífeyrir/menntunarstyrkur er ekki tekjutengdur.

Mæðra- og feðralaun greiðast til einstæðra foreldra sem hafa tvö eða fleiri börn á framfæri undir 18 ára aldri. Launin falla niður við breytingar á fjölskylduhögum.

Falli greiðslur örorkulífeyrisþega niður vegna vistar á sjúkrastofnun getur maki hans með tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára fengið greidd mæðra- eða feðralaun. Mæðra/feðralaun eru skattskyld en ekki tekjutengd.

Þessi réttindi er hægt sækja um á heimasíðu Tryggingastofnunar

Stéttarfélög

Útfararstyrkur er greiddur hjá flestum stéttarfélögum. Flest stéttarfélög starfrækja sjúkrasjóði sem greiða m.a. bætur eða styrki til maka eða barna 18 ára og yngri við fráfall félagsmanna. Reglur og upphæðir geta verið mismunandi eftir félögum. Best er að leita til viðkomandi félags til að fá réttar upplýsingar.

Laun látins maka

Eftirlifandi maki á oft rétt á launum hins látna allt að þremur mánuðum frá andláti. Vinnuveitendur eiga að geta gefið upplýsingar um það en einnig er hægt að leita til viðkomandi stéttarfélags og kynna sér samning um þetta.

Skatturinn

Við andlát maka er mikilvægt að nýta þau réttindi eða úrræði sem opinberar stofnanir eins og skatturinn bjóða upp vegna andláts maka.

  • Eftirlifandi maka er heimilt að nýta persónuafslátt hins látna í allt að 9 mánuði. Uppfylla þarf skilyrði til samsköttunar til að fá að nýta þessa heimild. (með samsköttun er einfaldlega átt við að hjón/sambúðarfólk færa eignatekjur, eignir og skuldir á sameiginlegt skattframtal)
  • Þá er möguleg lækkun á tekjuskattstofni en óska þarf eftir lækkun (ívilnun) í skattframtali og fylla út þar til gerða umsókn ef andlátið hefur haft í för með sér skert gjaldþol eftirlifandi maka vegna mikils kostnaðar. Veitt er t.d. ívilnun vegna útfararkostnaðar. 
  • Mikilvægt er að leita til Skattsins til að fá frekari upplýsingar um þessi eða mögulega önnur úrræði sem eru í boði hjá stofnuninni.

Sýslumenn

Sérstakt framlag

Sérstakt framlag er veitt til framfærslu barna sem misst hafa foreldri. Framlags er hægt að óska vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms o.fl. Sjá nánar hér

ATH: lesið vel um tímamörk og skilyrði.


Réttindi barna sem missa foreldri

Samkvæmt lögum (nr. 50/2019) ber þeim lækni sem skrifar út dánarvottorð að tilkynna andlát foreldris til þeirrar heilsugæslu sem barnið tilheyrir. Heilbrigðisstarfsmaður heilsugæslunnar skal eins fljótt og unnt er hafa frumkvæði að því að bjóða barninu, og þeim sem annast barnið, samtal. Í því er rætt um stuðning félagsmálanefndar í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili og um samvinnu við leik-, grunn- eða framhaldsskóla barnsins. 

Borgar-og bæjarskrifstofur

Fasteignagjöld og útsvar, hugsanlega fæst afsláttur ef tekjur eru undir ákveðnu viðmiðunarmarki.

Sveitafélög

Hægt að sækja um fjárhagsaðstoð vegna útfararkostnaðar ef tekjur eru lágar og félagslegar aðstæður erfiðar. Sveitarfélög veita í ákveðnum tilvikum afslátt á fasteignagjöldum og útsvari en það fer eftir tekjum hvort það sé samþykkt.

Tryggingar hjá tryggingafélögum

Mikilvægt er að athuga með réttindi hjá því tryggingafélagi sem viðkomandi er tryggður hjá og hvort eftirlifandi maki eigi rétt á bótum við fráfall hins látna. Mörg tryggingafélög bjóða t.d. upp á áfallahjálp við fráfall ástvinar. Það er þó misjafn tímarammi á þjónustunni og hver skylirðin eru.

Texti unnin af Ernu Guðmundsdóttur lögfræðing fyrir Sorgarmiðstöð

Lokað yfir hátíðirnar

Sorgarmiðstöð verður lokuð frá 25. desember til 2. janúar. Ef erindið er brýnt má hringja í neyðarsíma okkar 862 4141

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira