Upplýsingar þessar eru ekki tæmandi taldar og ná ekki til réttinda sem eftirlifandi maki gæti átt rétt á vegna barna. Athygli er vakin á því að upplýsingar sem hér eru raktar um réttindi eru einungis til hægðarauka og upplýsinga. Því er mikilvægt fyrir einstaklinga að leita til viðkomandi stofnana eða lífeyrissjóða. Þá er rétt að árétta að réttindi eða úrræði sem hér er fjallað um geta breyst frá einum tíma til annars.
Við andlát maka á eftirlifandi maki rétt á mánaðarlegum greiðslum makalífeyris úr lífeyrissjóðum sem hinn látni hefur greitt til og sömuleiðis barnalífeyri með börnum. Reglur hinna ýmsu sjóða um þetta efni eru lítið eitt mismunandi og hér fyrir neðan verður aðeins sagt almennum orðum frá því hvernig þeim er háttað. Nákvæmar upplýsingar er að finna á heimasíðum lífeyrissjóðanna og hjá starfsfólki þeirra. Sækja þarf um maka- og barnalífeyri skriflega en hjá sumum sjóðum er hægt að skila inn rafrænni umsókn. Sjóðirnir senda þér skriflegt svar þar sem fram kemur nákvæmlega hversu mikið þú færð greitt og hve lengi.
Margir hafa greitt í fleiri en einn sjóð um starfsævina en yfirleitt dugir að tala við þann sem greitt var í síðast og þá hafa starfsmenn hans umsjón með því að tryggja að greiðslur komi úr öðrum lífeyrissjóðum eftir því sem við á. Ef þú veist ekki í hvaða sjóð maki þinn greiddi síðast skaltu snúa þér til síðasta vinnuveitanda hans.
Öllum ber lögum samkvæmt að greiða í lífeyrissjóð og ber vinnuveitanda að skila greiðslum til sjóðsins. Þeim er ætlað að standa undir greiðslum t.d. vegna fráfalls maka.
Séreignasparnaður og tilgreind séreign
Séreignarsparnaður er sparnaður sem launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar eiga kost á að greiða í til viðbótar við lögbundinn lífeyrissparnað.
Tilgreind séreign er sérstök tegund séreignarsparnaðar sem samið hefur verið um á vinnumarkaði
Sem eftirlifandi maki áttu rétt á að fá barnalífeyri með börnum sem hinn látni sjóðfélagi hafði á framfæri sínu þar til þau eru 18 ára gömul. Í sumum tilvikum er hann greiddur beint til þín en öðrum á bankareikning á nafni barnsins. Oftast eru þau þó ekki viðtakendur greiðslunnar fyrr en eftir að þau verða fjárráða en misjafnt er eftir sjóðum við hvaða aldur barnalífeyrir fellur niður (18-23 ára).
Upphæð barnalífeyris er mjög mismunandi frá einum sjóði til annars og munur er einnig á reglum um hvenær réttur hefur myndast til að fá óskertan barnalífeyri.
Sértu ekki með nein börn á framfæri er fullur makalífeyrir langoftast greiddur að lágmarki í 36 mánuði (þrjú ár) en síðan er helmingur þeirrar upphæðar greiddur í 24 mánuði (tvö ár) til viðbótar. Sértu með 50% örorku eða meira kveða reglur oft á um greiðslur á meðan sú örorka varir eða þar til þú nærð 65 eða 67 ára aldri.
Fullur makalífeyrir er greiddur þar til yngsta barn ykkar á framfæri þínu nær ýmist frá 18 ára eða upp að 23 ára aldri, allt eftir því hvað ólíkar reglur sjóðanna segja til um, nema að þú gangir aftur í hjónaband eða skráir þig í sambúð en þá fellur hann niður.
Réttur til makalífeyris gengur þó aftur í gildi ef síðara hjónabandinu eða sambúðinni er slitið án réttar til lífeyris.
Það fer mikil orka og vinna við að sýsla í ofangreindum málum í kringum ástvinamissi og því mjög gott að fá aðstoð og stuðning frá ástvinum eða fagaðila.
Mikilvægt er fyrir hjón/sambúðarfólk að taka samtalið og gera tékklista. Fjárhagslegar áhyggjur er oft fylgifiskur sorgarferlis og er mikilvægt að huga að þeim fjárhagslegu björgunarnetum sem eru til staðar til að grípa eftirlifandi maka. Það er ekki óalgengt að eftirlifandi maki sé ekki upplýstur um réttindi, hafi hvorki þrek til að leita eftir aðstoð né sækja um það sem hann á rétt á. Verða einstaklingar því oft af töluverðum fjárhagslegum réttindum.
Hjón/sambúðarfólk óháð aldri ættu að setjast niður og ræða hvaða fjárhagslega björgunarnet taki við falli annar hvor einstaklingurinn í hjónabandinu/sambúðinni frá og gera sameiginlegan tékklista. Að gera erfðaskrá er tryggast en það er ekki umfjöllunarefnið hér.
Réttindin get legið á mörgum mismunandi stöðum og tékklisti getur auðveldað eftirlifandi maka að fóta sig í frumskógi réttinda á sama tíma og hann er að ganga í gegnum erfitt sorgarferli.
Fjárhagslega björgunarnetið getur verið til staðar hjá lífeyrissjóði hins látna, stéttarfélagi, vátryggingafélagi, sveitarfélaginu þeirra, opinberum stofnunum o.s.frv. Þá er mikilvægt að athuga hvort hinn látni eigi réttindi samkvæmt þeim kjarasamningi sem hann starfaði eftir en þar gæti skipt máli hvernig andlàtið bar að garði.
| ||
|
|
|
| 2024 | Tékklisti |
|
|
|
| Hvaða | Hjá |
| MAKALÍFEYRIR MEÐ FRAMREIKNINGI | LÍFEYRISSJÓÐUR HINS LÁTNA EINSTAKLINGS |
| SÉREIGNASPARNAÐUR | LÍFEYRISSJÓÐUR EÐA BANKI |
| TILGREIND SÉREIGN | LÍFEYRISSJÓÐUR EÐA BANKI |
| LAUSNARLAUN SAMKVÆMT KJARASAMNINGI | LAUNAGREIÐANDI HINS |
| UPPGERT ÁUNNIÐ ORLOF O.FL. | LAUNAGREIÐANDI HINS LÁTNA EINSTAKLINGS |
ÚTFARARSTYRKUR OG EÐA DÁNARBÆTUR | LEITA TIL STÉTTARFÉLAGS HINS LÁTNA STÉTTARFÉLAGS | |
| SLYSATRYGGINGAR SKV. KJARASAMNINGI | LEITA TIL STÉTTARFÉLAGS |
| NÝTA PERSÓNUAFSLÁTT HINS LÁTNA | SKATTURINN |
| LÆKKUN Á TEKJUSKATTSSTOFNI | SKATTURINN |
| DÁNARBÆTUR | TRYGGINGASTOFNUN |
AFSLÁTTUR Á FASTEIGNAGJÖLDUM OG ÚTSVARI | SVEITARFÉLAG | |
LÍFTRYGGINGAR | VÁTRYGGINGAFÉLAG |
Mikilvægt að mannauðsstjórar eða þeir aðilar sem sjá um launagreiðslur tryggi að eftirlifandi maki starfsmanns sem fellur frá fái upplýsingar um þann rétt sem hann á rétt á frá launagreiðanda. Stéttarfélag hins látna getur jafnframt veitt upplýsingar um réttindi samkvæmt kjarasamningi.
Kjarasamningar sem hinn làtni starfaði eftir geta tryggt eftirlifandi maka ýmsar greiðslur eða styrki en það er misjafnt eftir kjarasamningum stéttarfélaga hvaða réttindi eru tryggð.
Eignir og skuldir hins látna kallast dánarbú. Til verður sérstakur lögaðili sem tekur við flestum fjárhagslegum réttindum og skyldum hins látna þar til þau hafa verið leidd til lykta. Um þessi atriði er einkum fjallað í lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og að hluta lögum nr. 8/1962, erfðalögum.
Við andlát maka er mikilvægt að nýta þau réttindi eða úrræði sem opinberar stofnanir eins og Tryggingastofnun bjóða upp vegna andláts maka. Mismunandi úrræði eru eftir því hvort eftirlifandi maki er innan 67 ára aldurs eða lífeyrisþegi. Mikilvægt er að leita til Tryggingastofnunar til að fá frekari upplýsingar um þessi úrræði eða mögulega önnur úrræði sem eru í boði hjá stofnuninni.
Eftirlifandi maki er innan 67 ára aldurs:
Eftirlifandi maki er lífeyrisþegi:
Barnalífeyrir greiðist ef hinn látni á börn yngri en 18 ára og til 20 ára ef um er að ræða ungmenni sem er í námi. Geiðist þá upphæðin beint til ungmennis. Barnalífeyrir/menntunarstyrkur er ekki tekjutengdur.
Mæðra- og feðralaun greiðast til einstæðra foreldra sem hafa tvö eða fleiri börn á framfæri undir 18 ára aldri. Launin falla niður við breytingar á fjölskylduhögum.
Falli greiðslur örorkulífeyrisþega niður vegna vistar á sjúkrastofnun getur maki hans með tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára fengið greidd mæðra- eða feðralaun. Mæðra/feðralaun eru skattskyld en ekki tekjutengd.
Þessi réttindi er hægt sækja um á heimasíðu Tryggingastofnunar
Útfararstyrkur er greiddur hjá flestum stéttarfélögum. Flest stéttarfélög starfrækja sjúkrasjóði sem greiða m.a. bætur eða styrki til maka eða barna 18 ára og yngri við fráfall félagsmanna. Reglur og upphæðir geta verið mismunandi eftir félögum. Best er að leita til viðkomandi félags til að fá réttar upplýsingar.
Eftirlifandi maki á oft rétt á launum hins látna allt að þremur mánuðum frá andláti. Vinnuveitendur eiga að geta gefið upplýsingar um það en einnig er hægt að leita til viðkomandi stéttarfélags og kynna sér samning um þetta.
Við andlát maka er mikilvægt að nýta þau réttindi eða úrræði sem opinberar stofnanir eins og skatturinn bjóða upp vegna andláts maka.
Sérstakt framlag er veitt til framfærslu barna sem misst hafa foreldri. Framlags er hægt að óska vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms o.fl. Sjá nánar hér
ATH: lesið vel um tímamörk og skilyrði.
Samkvæmt lögum (nr. 50/2019) ber þeim lækni sem skrifar út dánarvottorð að tilkynna andlát foreldris til þeirrar heilsugæslu sem barnið tilheyrir. Heilbrigðisstarfsmaður heilsugæslunnar skal eins fljótt og unnt er hafa frumkvæði að því að bjóða barninu, og þeim sem annast barnið, samtal. Í því er rætt um stuðning félagsmálanefndar í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili og um samvinnu við leik-, grunn- eða framhaldsskóla barnsins.
Fasteignagjöld og útsvar, hugsanlega fæst afsláttur ef tekjur eru undir ákveðnu viðmiðunarmarki.
Hægt að sækja um fjárhagsaðstoð vegna útfararkostnaðar ef tekjur eru lágar og félagslegar aðstæður erfiðar. Sveitarfélög veita í ákveðnum tilvikum afslátt á fasteignagjöldum og útsvari en það fer eftir tekjum hvort það sé samþykkt.
Mikilvægt er að athuga með réttindi hjá því tryggingafélagi sem viðkomandi er tryggður hjá og hvort eftirlifandi maki eigi rétt á bótum við fráfall hins látna. Mörg tryggingafélög bjóða t.d. upp á áfallahjálp við fráfall ástvinar. Það er þó misjafn tímarammi á þjónustunni og hver skylirðin eru.
Texti unnin af Ernu Guðmundsdóttur lögfræðing fyrir Sorgarmiðstöð
LÍFSGÆÐASETUR Í ST. JÓ
SUÐURGATA 41, 220 HAFNARFJÖRÐUR
sorgarmidstod@sorgarmidstod.is
Sími: 551 4141
Kennitala: 521118-0400
Reikningsnúmer: 0513-26-009753
Landlæknisembættið er verndari Sorgarmiðstöðvar