Ávarp landlæknis við opnun Sorgarmiðstöðvar

Fundarmenn, kæru félagar.

Það er mér mikilvægt að vera með ykkur hér í kvöld. Nú sem aldrei fyrr er þörf á vitundarvakningu um dauðann og sorgina. Á árum áður, eins og þegar St. Jósefsspítali var tekinn í notkun fyrir hartnær hundrað árum, var dauðinn tíður heimilisgestu. Fyrri kynslóðir lifðu í návígi við dauðann. Til að öðlast nýja sýn verðum við að skilja að dauðinn getur vissulega verið ótímabær og hræðilegur, en hann er samt lífsins gangur. Því verðum við að læra að lifa með honum og sorginni.

Það er því ánægjulegt að vera stödd hér í dag við opnun Sorgarmiðstöðvarinnar og sérlega viðeigandi að miðstöðin muni eiga samastað í þessari fallegu og sögufrægu byggingu sem árum saman hýsti sjúklinga, aðstandendur og syrgjendur. Í sorgarmiðstöðinni sameina krafta sína sérfræðingar og eldhugar með dýrmæta þekkingu og reynslu frá Nýrri dögun, Ljónshjarta, Birtu og Gleim mér ei. Það er vel því sameinuð erum við sterkari. Markmiðin eru  metnaðarfull og snúast um að samræma úrræði fyrir syrgjendur, efla samfélagsumræðu um sorgina, að stuðla að skilvirkari upplýsingagjöf og ráðgjöf til þeirra sem misst hafa og að gæta hagsmuna þeirra sem syrgja.

Hluti af þessu starfi mun taka til þess að grípa inn í þegar sá sem syrgir telur sig einan á báti í harmi sínum og reynir að fara áfram á hnefunum. Ómeðhöndluð sorg er nefnilega tærandi og getur valdið skerðingu á lífsgæðum og heilsu. Þekking okkar á því hvaða áhrif áföll geta haft á heilsu, bæði andlega og líkamlega, er sífellt að aukast. Þannig er úrvinnsla sorgar í raun lýðheilsumál án þess þó að við ætlum að sjúkdómsvæða sorgina.

Þetta er ekki síst mikilvægt þegar börn eru annars vegar. Börnin eru hinir ósýnilegu syrgjendur og þau eru einmitt sérlega viðkvæm fyrir áföllum. Dauðsfall nákomins ættingja getur bylt veröld barns. Þeirra vegna þurfum við að læra að tala um og umgangast dauðann, svo við getum á þeim erfiða tímapunkti  veitt þeim þá huggun sem þau þurfa og eiga skilið. Ég veit að þið aðstandendur Sorgarmiðstöðvarinnar eru stórhuga þegar kemur að bættri þjónustu við börn.

Verkefni Sorgarmiðstöðvarinnar eru ekki einungis af þeim toga að auðvelda syrgjendum að fást við harm sinn, heldur eru þau sömuleiðis til þess fallin að undirbúa okkur öll. Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar mun eftirspurn eftir líknandi- og lífslokameðferð aukast. Þannig þurfum við að eiga auðveldara með að hugsa og ræða dauðann og hvað hann þýðir fyrir okkur. Hafandi starfað sem gjörgælsulæknir allan minn starfsferil hef ég haft mikil samskipti við dauðann og oft upplifað hjá syrgjendum hvað það hefði verið mikilvægt að vera búin að ræða betur málin. Mig langar að beita mér fyrir því að koma á laggirnar svokallaðri Lífsskrá, vonandi á allranæstu árum, þar sem við gætum, í samráði við okkar nánustu, komið margskonar ákvörðunum og óskum á framfæri og þannig búið í haginn fyrir það sem við komumst ekki hjá. Landlæknir verður verndari Sorgarmiðstöðvarinnar og það er mér mikill heiður að taka við því hlutverki. Með því er áréttað að stuðningur við syrgjendur falli undir lýðheilsustarf og sé mikilvægur liður í heilsueflingu samfélagsins. Ég er þess fullviss að við munum eiga gott samstarf. Ég óska Sorgarmiðstöðinni velfarnaðar í öllu starfi og er sannfærð um mikilvægi hennar. Til hamingju.

Myndin af pabba er komin upp á hillu
Þegar barnsfaðir Ingu Helgu Sveinsdóttur lést eftir harða baráttu við krabbamein ákvað hún strax að sækja alla þá aðstoð sem hún mögulega gæti fyrir börnin ...
Ný stjórn Sorgarmiðstöðvar
Á aðalfundi 29. apríl síðastliðinn var kosið til nýrrar stjórnar Sorgarmiðstöðvar sem mun sitja frá 2025 -2026. Berglind Arnardóttir mun halda sæti sínu sem formaður ...
Fundur með velferðarnefnd vegna sorgarleyfis
Í vor óskaði velferðarnefnd eftir umsögn frá Sorgarmiðstöð og öðrum hagsmunaaðilum varðandi breytingar á sorgarleyfi sem tók gildi 1. janúar 2023. Í framhaldinu mættu fulltrúar ...
Heiðursbollinn 2024
Heiðursbollinn afhentur í fjórða sinn
Á aðalfundi Sorgarmiðstöðvar þann 29. apríl var Heiðursbollinn afhentur í fjórða sinn. Heiðursbollinn er ætlaður sem viðurkenning til þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum ...
Aðalfundur Sorgarmiðstöðvar 2025
Aðalfundur Sorgarmiðstöðvar verður haldinn þriðjudaginn 29. apríl. Fundurinn verður frá kl. 18:00 – 20:00 og er haldinn í Lífsgæðasetrinu Hafnarfirði. Áhugasamir geta sent fyrirspurn varðandi framboð til ...
Minningarmót Sigurðar Jóhanns í Mjölni
Sunnudaginn 2. febrúar hélt Mjölnir minningarmót til heiðurs Sigurði Jóhanni Rui Helgasyni. Sigurður Jóhann var iðkandi og þjálfari í Mjölni til fjölda ára en hann ...

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira