Á dögunum fékk Sorgarmiðstöð styrk að upphæð 655 þúsund krónum í nafni Lárusar Dags Pálssonar. Lárus, eða Lalli eins og hann var kallaður, hefði orðið fimmtugur 6. september og af því tilefni héldu systur hans og vinir stóra veislu í Hlégarði. Listamenn og gestir tróðu upp með tónlist og sögum en var einnig boðið að styrka Sorgarmiðstöð.
„Ástæða þess að við vildum styrkja Sorgarmiðstöð er sú að við vitum hversu mikilvægt það er að geta leitað stuðnings þegar áföll eins og það sem við urðum fyrir dynja á. Sorgin er langt og einmanalegt ferli, en þá þarf maður alla þá hjálp sem er að finna til að fóta sig í nýjum veruleika. Nálgun Sorgarmiðstöðvar er að okkar mati fagleg og nærgætin í senn“ segir í bréfi aðstandenda.
Við erum ótrúlega þakklát fjölskyldu Lalla og vinum fyrir þessa rausnarlegu gjöf.