Tendrað verður á Sorgartré Sorgarmiðstöðvar þriðja árið í röð í Hellisgerði sunnudaginn 1. desember. Í augum flestra eru jólin tími tilhlökkunar og gleði en þau geta líka verið erfiður tími, sérstaklega fyrir þau sem hafa misst ástvin.
Viðburðurinn mun hefjast í Lífsgæðasetrinu St. Jó, Hafnarfirði, kl. 17:30, þar farið verður með nokkur orð um jólin og sorgina. Síðan verður gengið saman með kerti í hönd í átt að Hellisgerði þar sem kveikt verður á Sorgatrénu við fallega athöfn. Dagskráin í Hellisgerði byrjar kl. 18.
Hugmyndin með Sorgartrénu er að öll þau sem hafa misst ástvin geti sest undir tréð og minnst þeirra sem fallin eru frá, á þessum ljúfsára tíma sem jólin eru fyrir syrgjendur. Sorgartrénu er einnig ætlað að vekja athygli á stöðu syrgjenda sem eiga um sárt að binda á þessum tíma árs. Öll eru því velkomin, hvort sem þau vilji sýna stuðning eða vilji minnast.
Dagskráin hefst með fallegum söng frá kórnum Raust sem er undir Stjórn Hrafnhildar Blomsterberg, Berglind Arnardóttir stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvar mun síðan flytja hugvekju. Að söng og hugvekju lokinni verður tendrað á sorgartrénu og Elín Hall söngkona mun síðan loka stundinni með því að syngja nokkur vel valin lög. Jólasveinar verði á vappi með mandarínur handa börnunum og A. Hansen selur kakó og mun 90 kr. af hverjum seldum bolla hjá þeim renna til Sorgarmiðstöðvar og styrkja starf miðstöðvarinnar sem hefur reynst mörgum syrgjendum vel á erfiðum tímabilum.
Að auki mun Sorgarmiðstöð vera í fyrsta skipti með bás í jólaþorpinu þessa sömu helgi og selja leiðiskerti og leiðiskertastjaka en salan af þessum vörum mun fara í að styrkja starfið enn fremur.