Borgarleikhúsið og Sorgarmiðstöð buðu upp á umræður eftir sýninguna „Ég hleyp“ þann 7. apríl. Í umræðum tóku þátt Harpa Arnardóttir leikstjóri, Gísli Örn Garðarsson leikari og Maríanna Clara Lúthersdóttir sem er listrænn ráðunautur leikhússins. Frá Sorgarmiðstöð voru Steinunn Sigurþórsdóttir og Gunnar Lúðvík Gunnarsson en þau deila þeirri sáru reynslu að hafa misst barn.
Leikhúsgestir tóku einnig þátt í umræðunum með spurningum úr sal. Umræðurnar tókust vel og gáfu enn betri sýn á verkið ásamt því að gestir fengu að vita hvernig leikarinn undirbýr sig daginn fyrir sýningu.
Ein af þeim spurningum sem kom fram var: Er sýningin hjálpleg þeim sem hafa nýlega misst ástvin?
Eins og með svo margt þá er misjafnt hvað hjálpar fólki í sorginni, við erum öll ólík og ekki hægt að svara þessu á einfaldan máta en þeir syrgjendur sem voru í salnum voru sammála um að hægt sé að tengja sterkt við þær krefjandi tilfinningar sem komu fram hjá syrgjandi föður. Það kom líka fram í umræðunum að ein af ástæðum þess að ráðist var í að setja upp verkið var að aðstandendum sýningarinnar fannst mikilvægt að að opna umræðuna um sorgina og dauðann og þann vandræðagang sem syrgjendur upplifa frá fólkinu í kring sem ekki veit hvað skal segja eða gera.
Sorgarmiðstöð þakkar Borgarleikhúsinu kærlega fyrir samvinnuna í þessum umræðum. Sérstakar þakkir fær Gísli Örn leikari sem skilar hlutverki sínu á einstakan hátt og í leiðinni að láta syrgjendur njóta puðsins af þeirri vinnunni en Gísli Örn lætur allan ágóða af sýningunni renna til góðra málefna.
LÍFSGÆÐASETUR Í ST. JÓ
SUÐURGATA 41, 220 HAFNARFJÖRÐUR
sorgarmidstod@sorgarmidstod.is
Sími: 551 4141
Kennitala: 521118-0400
Reikningsnúmer: 0513-26-009753