Við hátíðlega athöfn í gær, miðvikudaginn 11. maí, skrifuðu Karólína Helga Símonardóttir formaður stjórnar Sorgarmiðstöðvar og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri undir nýjan samstarfssamning.
Í tilefni þess hélt Karólína Helga ræðu:
„Kæru gestir!
Stjórn, samstarfsfólk, heiðursgestirnir okkar Sr. Vigfús Bjarni og Rósa bæjarstjóri Hafnarfjarðar og aðrir velunnar Sorgarmiðstöðvar. Takk innilega fyrir komuna á þessum merka degi.
Í dag 11. maí opnum við formlega nýtt og stærra rými Sorgarmiðstöðvar í Lífsgæðasetrinu. Hafnarfjarðarbær er einn mikilvægasti samstarfs- og styrktaraðili Sorgarmiðstöðvar og forsenda þess að miðstöðin geti dafnað er að hafa trygga aðstöðu fyrir starfsemina. Við teljum þetta rými vera mikla lyftistöng fyrir syrgjendur og aðstandendur, hér erum við mun betur í stakk búin til að takast á við öll þau verkefni sem við viljum sinna af mikilli natni og fagmennsku og eru þar stuðningshópastörfin okkar fremst í flokki. Samhliða því að halda úti hópastörfum þá sinnum við mikilvægri fræðslu, réttindabaráttu og ráðgjöf til syrgjenda og aðstandenda þeirra.
Sorgarmiðstöð á í stöðugu samtali við stjórnvöld um hin ýmsu mál sem snúa að sorg og sorgarúrvinnslu. Nú síðast þá áttum við í góðu samtali við Guðmund Inga vinnu og félagsmálaráðherra um hversu mikilvægt er að grípa syrgjendur sem missa ástvin skyndilega og hefur Sorgarmiðstöð nú þegar lagt drög að þeirri vinnu.
Á síðastliðnu starfsári, þrátt fyrir ýmsar áskoranir vegna covid-19 og fjárhagslegar áskoranir þar sem við þurfum að endurskipuleggja allt okkar starf vegna skorts fjármagni og aðstöðu þá náðum við samt að bjóða upp á: 13 fræðsluerindi og 28 stuðningshópa. Til okkar leituðu um 1800 manns á starfsárinu.
Við eigum gott samstarf við hin ýmsu félagasamtök og stofnanir, meðal annars er erindið Nýlega misst samstarf okkar við Líknadeild Landspítalans. Einnig erum við góðu samstarfi við einstaklinga sem hafa stutt vel við málefni syrgjenda og í fyrsta sinn veitti Sorgarmiðstöð viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu syrgjenda á Íslandi. Það er séra Vigfúsi Bjarni Albertsson sem hlaut Heiðursbolla Sorgarmiðstöðvar 2021. Hann er heiðursgestur hér í kvöld og viljum við sérstaklega klappa fyrir honum og hans óeigingjarna starfi.Í starfi sínu hefur Vigfús Bjarni aðstoðað fjölda fjölskyldna í sorginni og stutt við bakið á börnum og fullorðnum. Einnig hefur hann liðsinnt fagólki og hjálpað því að eflast í starfi. Vigfús Bjarni hefur getið sér gott orð fyrir þægilega, góða og styrkjandi nærveru hvort sem er meðal syrgjenda eða fagfólks. Hann á því þessa viðurkenningu innilega skilið. Takk fyrir kæri Vigfús Bjarni.
Sorgarmiðstöð er óhagnaðardrifið félag og er því algjörlega rekið á styrkjum og stuðningi einstaklinga og fyrirtækja/félagasamtaka. Má meðal annars nefna Oddfellow Stúka Þorkels Mána og Rotary klúbbur Hafnarfjarðar styrktu okkur nýlega svo hægt sé að kaupa búnað í nýja rýmið okkar og berum við þeim bestu þakkir fyrir það. Sorgarmiðstöð hlaut einnig styrki á árinu frá Heilbrigðisráðuneytinu, Félagsmálaráðneytinu og Lýðheilsusjóði. Ásamt þessu veittu minningasjóðir, félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki félaginu styrki. Styrkir frá einstaklingum eru ómetanlegir fyrir starfsemina en fjölmargir hafa styrkt Sorgarmiðstöð á árinu bæði í minningu ástvinar og eins eftir að hafa nýtt sér þjónustu Sorgarmiðstöðvar.
Stjórn Sorgarmiðstöðvar hefur óskað eftir rekstrarstuðning fyrir næstu þrjú ár frá bæði Vinnu- og Félagsmálaráðuneytinu sem og Heilbrigðisráðuneytinu. Við fengum jákvæð viðbrögð en bíðum enn eftir svari.
Við getum með sanni sagt að í dag er Sorgarmiðstöð einu samtökin sinna tegundar á Íslandi.
Það er því miður orðinn ansi þröngur kostur hjá okkur og verður erfiðara að reka Sorgarmiðstöðina án þess að geta tryggt að vera með öruggt rekstrarfé. Þetta hefur áhrif á hversu hratt við getum keyrt á biðlistana okkar í stuðningshópastörfunum. Við sem þekkjum til sorgar vitum að það er ansi erfitt að biðja um stuðning, hvað þá að þurfa að bíða eftir honum þegar við erum tilbúin til að takast á við sorgina og úrvinnsluna í kringum hana.
Takk íslenskt samfélag fyrir að taka einstaklega vel á móti okkur og vilja í auknum mæli nýta og þiggja þjónustu Sorgarmiðstöðvar. Þörfin á miðstöð eins og okkar er augljós og erum við einstaklega stolt af því hvert við erum komin og hvert við stefnum. Við hlökkum til að fara inn í nýtt starfsár í stærra og betra rými og umvefja okkar fólk enn betur.
Takk innilega fyrir okkur Hafnarfjarðabær, Vigfús Bjarni og samfélagið allt. Við erum hér fyrir ykkur.“