Helgina 5.-7. desember var Sorgarmiðstöð með bás í jólaþorpinu í miðbæ Hafnarfjarðar. Þetta er annað árið sem við prófum að vera með viðveru í jólaþorpinu og gekk það með eindæmum vel eins og fyrri árið.
Í ár seldum við heitt súkkulaði en ágóðinn sem kom af sölunni mun fara í að styrkja starf Sorgarmiðstöðvar. Barbara Kaffibar ákvað að þessu sinni að slást í lið með okkur og gáfu þeir okkur heita súkkulaðið sitt í styrk svo við gætum boðið gangandi vegfarendum í þorpinu upp á drykk í hæsta gæðaflokki. Við þökkum þeim afar vel fyrir en súkkulaðisalan gekk framar vonum og mun ágóðinn af henni nýtast heldur betur vel.
Við náðum einnig að gefa smá forskot á nýja vöru hjá okkur í jólaþorpinu en það er Hjartaknúsið sem er skapað í samvinnu við Valdísi Ólafsdóttur keramikhönnuð sem hannar undir merkinu Dísa – Litlu hlutir lífsins.
Hjartaknúsið okkar er lyklakippa með fallegu keramik-hjarta og skilaboðunum “knús”. Það er því hægt að bera faðminn og hlýjuna með sér í gegnum daginn, eða gefa öðrum knús sem á þurfa að halda. Hjartaknúsið mun fara í vefverslun og frekari sölu eftir áramót.



