Stuðningshópar í sorgarúrvinnslu eru ekki meðferð við sorg, en þeir geta bætt líðan þeirra sem syrgja og hafa þannig meðferðarlegt gildi. Markmiðið með hópastarfinu er að gefa syrgjendum rými og vettvang til að tjá líðan sína og veita þeim innsýn og skilning á margvíslegum birtingarmyndum sorgarferilsins. Þegar fólk kynnist, sem á það sameiginlegt að hafa misst ástvin, skapast oft dýrmæt samkennd og traust þar sem þátttakendur fá tækifæri til að þiggja stuðning og miðla eigin reynslu.
Það er algengur misskilningur að í sorgarhópum sé fólk „að velta sér uppúr sorginni“. Verkefnið er að finna sorginni stað í hjartanu – til að geta haldið áfram að lifa. Það myndast oft hlý vináttutengsl í hópnum og þar er líka hlegið því húmorinn er afar mikilvægur og hjálplegur í sorginni.
Í hverjum stuðningshópi eru um tíu manns sem hittast vikulega í fjögur til sex skipti. Tveir hópstjórar halda utan um hvern hóp.
Nauðsynlegt er að skrá sig í stuðningshópastarf til að tryggja þátttöku og er hægt að skrá sig hvenær sem er.
Almennt er talið heppilegt að sex mánuðir líði frá andláti ástvinar þangað til þér gagnast að taka þátt í stuðningshópi – en þetta er ekki algilt.
LÍFSGÆÐASETUR Í ST. JÓ
SUÐURGATA 41, 220 HAFNARFJÖRÐUR
sorgarmidstod@sorgarmidstod.is
Sími: 551 4141
Kennitala: 521118-0400
Reikningsnúmer: 0513-26-009753
Landlæknisembættið er verndari Sorgarmiðstöðvar