Í vor óskaði velferðarnefnd eftir umsögn frá Sorgarmiðstöð og öðrum hagsmunaaðilum varðandi breytingar á sorgarleyfi sem tók gildi 1. janúar 2023. Í framhaldinu mættu fulltrúar Sorgarmiðstöðvar og Gleym mér ei styrktarfélags á fund velferðarnefndar þar sem þeir kynntu mikilvægi sorgarleyfis fyrir þá sem missa barn. Einnig voru ræddar fyrirhugaðar breytingar sem myndu ná til þeirra sem missa maka þegar börn eru á heimilinu, auk bættra réttinda fyrir þá sem missa barn á meðgöngu.
Málið á enn eftir að fara í gegnum aðra og þriðju umræðu á Alþingi, en við erum bjartsýn og vongóð á að þingmenn muni sjá gildi þess að samþykkja þessar breytingar og staðfesta lögin. Má nálgast upplýsingar um nefndarálit hér – https://www.althingi.is/altext/156/s/0394.html
Félags- og húsnæðismálaráðherra bauð fulltrúum Sorgarmiðstöðvar og Gleym mér ei styrktarfélags einnig á fund til að fræðast nánar um þau mikilvægu verkefni sem félögin vinna að í þágu syrgjenda.