Hópstjórar

Birna Dröfn Jónasdóttir

Birna Dröfn hefur frá árinu 2015 stýrt stuðningshópi fyrir einstaklinga sem misst hafa foreldri. Hún missti sjálf föður sinn þegar hún var 12 ára og móður sína þegar hún var 27 ára gömul.
Birna hefur barist fyrir réttindum barna sem misst hafa foreldri og tók meðal annars þátt í vinnu við breytingar á lögum um rétt barna sem aðstandendur.  Birna er félagsfræðingur með Ms. í verkefnastjórnun. Hún starfar sem blaðamaður og er formaður Nýrrar dögunar.

Friðdóra Dís Kolbeinsdóttir

Friðdóra Dís stýrir stuðningshópi fyrir aðstandendur sem misst hafa systkini. Hefur hún misst tvo bræður, árið 2012 og árið 2021 og móður þegar hún var ung að aldri. Hún sinnir einnig jafningjastuðningi fyrir einstaklinga sem leita til Sorgarmiðstöðvarinnar.
Friðdóra Dís er viðskiptafræðingur frá HR að mennt og starfar sem slíkur í ferðaþjónustu til margra ára auk þess sem hún er jógakennari og kennir allskonar jóga.

Guðbjörg Hulda Einarsdóttir

Guðbjörg Hulda Einarsdóttir er hjúkrunarfræðingur frá HÍ með viðbótardiplómu í sálgæslufræðum frá EHÍ og djáknafræðum í HÍ.  Guðbjörg hefur starfað á krabbameinsdeild LSH og sem teymisstjóri heimahjúkrunar í Kópavogi þar sem hún vann náið með þeim sem eru að ganga í gegnum erfiðleika og glíma við áföll og missi.

Síðustu 4 ár hefur hún starfað í Auðnast og sinnir þar ýmsum verkefnum á sviði sorgar m.a. fræðslu, stuðningsviðtölum og sálrænni skyndihjálp.

Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir

Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir lauk embættisprófi í Guðfræði frá HÍ árið 2007. Hún hefur unnið á leikskólum og um tíma hjá Barnavernd áður en hún flutti til Bandaríkjanna og dvaldi þar í 11 ár. Núna starfar hún hjá Lágafellssókn. Guðlaug hefur sjálf reynslu af foreldramissi en hún missti pabba sinn þegar hún var 19 ára.

Guðrún Ágústsdóttir

Guðrún var um árabil borgarfulltrúi í Reykjavík, en auk þess vann hún sem ritari í Hjúkrunarskóla Íslands, í menntamálaráðuneytinu, hjá Kvennaathvarfinu og Jafnréttisráði svo eitthvað sé nefnt. Í mörg ár bjó Guðrún í Kanada, Svíþjóð og síðast Danmörku og þar tók hún BSc próf í félagsvísindum. Guðrún var formaður Öldungaráðs Reykjavíkur 2015­–2018 og svo ráðgjafi hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík og Landssambandi eldri borgara. Í því starfi einbeitti hún sér meðal annars að einmanaleika aldraðra, en þar er makamissir áhættuþáttur. Guðrún missti maka sinn í janúar 2021 og hefur sagt frá þeirri reynslu í viðtölum. Þá samdi hún bæklinginn Við andlát maka sem Landssamband eldri borgara gaf út 2021.
Guðrún er hópstjóri í makamissi í hópnum fyrir þau sem missa maka á efri árum.

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir

Guðrún Jóna hefur frá árinu 2017 stýrt stuðningshópi fyrir aðstandendur sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi. Hún missti son í sjálfsvígi árið 2010.
Árið 2011 kom hún að stofnun Minningarsjóðs Orra Ómarssonar og gerð heimasíðunnar sjalfsvig.is. Hún hefur barist fyrir því að opna umræðu um sjálfsvíg á opinberum vettvangi. Ásamt því að hafa unnið í mörg ár í gegnum félagasamtök að forvörnum sjálfsvíga og stuðningi við aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi.
Guðrún Jóna er hjúkrunarfræðingur B.Sc., MPM, Fagstjóri Sorgarmiðstöðvar og verkefnastjóri hjá Embætti Landlæknis.

Gunnjóna Una Guðmundsdóttir

Gunnjóna Una hefur undanfarin ár verið hópstjóri í stuðningshóp fyrir þau sem missa maka á efri árum. Gunnjóna Una starfaði í 17 ár sem félagsráðgjafi hjá Krabbameinsfélaginu og á einnig að baki MA nám í öldrunarfræðum. Hún hefur  verið leiðbeinandi á námskeiðum í hugrænni atferlismeðferð síðan 2008, leitt djúpslökun og hópslökun í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins ásamt því að aðstoðað fólk við að vinna úr áföllum í EMDR meðferð. Gunnjóna Una fór á eftirlaun í maí 2021.

Helena Rós Sigmarsdóttir

Helena Rós hefur frá árinu 2018 stýrt stuðningshópi fyrir aðstandendur sem misst hafa ástvin í kjölfar fíknar. Helena missti sjálf dóttur árið 2014. Hún kom að stofnun Minningarsjóðs Ástríðar Ránar, Týri og Bimbó. Hún hefur barist fyrir opinni umræðu um fíknisjúkdóminn og bættum stuðningi við ungmenni sem ánetjast fíkniefnum. Helena Rós hefur einnig beitt sér fyrir bættum réttindum foreldra sem misst hafa barn.
Helena Rós er lögfræðingur að mennt og starfar sem slíkur. Hún kom að stofnun Sorgarmiðstöðvar og átti sæti í fyrstu stjórn hennar.

Hjalti Jón Sverrisson

Hjalti Jón Sverrisson starfar sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum. Hann hefur viðbótardiplómu í sálgæslufræðum frá EHÍ og lagt stund á nám í áfallafræðum.
Hann hefur komið víða við í starfi með syrgjendum, meðal annars tekið þátt í að leiða hópa fyrir þau sem hafa misst ástvin vegna fíknar og fyrir þau sem hafa misst ástvin í sjálfsvígi. Þá hefur hann einnig tekið þátt í að leiða starf Arnarins.
Í Sorgarmiðstöð leiðir Hjalti stuðningshópastarf fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi.

Hólmfríður Anna Baldursdóttir

Anna hefur starfað hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, á Íslandi og víða erlendis um árabil. Hún starfar nú sem verkefnastjóri í kynningarmálum hjá höfuðstöðvum UNICEF í New York. 

Anna missti barn eftir 34 vikna meðgöngu. Hún úskrifaðist úr sálgæslunámi Endurmenntunar Háskóla Íslands árið 2022 og hefur sótt jafningjafræðslunámskeið hjá Sorgarmiðstöðinni. Anna leiðir stuðningshópastarf fyrir foreldra sem misst hafa barn/börn á meðgöngu. 

Hólmfríður Ólafsdóttir

Hólmfríður er djákni með BA í djáknafræðum/guðfræði og diplómanám í sálgæslu. Hún lauk einnig nýverið sáttamiðlun frá Sáttamiðlunarskólanum. Hólmfríður hefur starfað sem djákni í 8 ár og hefur víðtæka reynslu af sálgæslu við syrgjendur. Hún sinnir bæði eftirfylgd eftir andlát, á samtöl við fólk í alvarlegum veikindum, er að ganga í gegnum skilnaði o.fl. Einnig hefur hún starfað mikið með öldurðum.
Hólmfríður hefur sjálf upplifað missi, hún missti bróður sinn 9 ára gömul og faðir sinn 15 ára gömul. Bæði þessi andlát höfðu miklar breytingar í kjölfarið á hennar líf. Hennar hugsjón er sú að með hjálp og stuðningi er allt hægt.

Hólmfríður sinnir stuðningshópastarfi fyrir foreldramissir og systkinamissi.

Ína Lóa Sigurðardóttir

Ína Lóa hefur unnið að velferð syrgjenda í mörg ár. Hún stofnaði samtökin Ljónshjarta og var þar formaður fyrstu sex árin. Ína kom að stofnun Sorgarmiðstöðvar og var í fyrstu stjórn hennar. Hún er einnig annar hugmyndasmiða sjónvarpsþáttana MISSIR sem sýndir voru á Símanum.
Árið 2002 missti Ína Lóa barn á meðgöngu og árið 2012 missti hún maka sinn frá tveimur ungum börnum. 
Ína Lóa er kennari að mennt og starfaði sem slíkur í rúm 10 ár. Hún er markþjálfi og hefur einnig tekið diplómanám í hugrænni atferlismeðferð. Í dag gegnir Ína Lóa starfi framkvæmdastjóra Sorgarmiðstöðvar.
Ína Lóa sinnir stuðningshópastarfi fyrir makamssir og stuðningshópastarfi fyrir þau sem missa barn á meðgöngu.

Íris Eiríksdóttir

Íris Eiríksdóttir er menntaður nuddari , jóga og hugleiðslukennari með margra ára reynslu í starfi. Hún starfar nú í Lífsgæðasetri st. Jó. 

Íris missti móður sína 19 ára gömul og föður sinn 29 ára gömul. Íris sinnir stuðningshópastarfi fyrir þau sem misst hafa foreldri en áður starfaði hún sem hópstjóri hjá Nýrri dögun.

Jóhanna María Eyjólfsdóttir

Jóhanna María útskrifaðist sem djákni frá HÍ árið 2017. Hún hefur talsverða reynslu af því að styðja
aðstandendur í sorg og missi, m.a. í gegnum störf sín hjá útfararþjónustu, með eldri borgurum og einstaklingum sem hafa misst, m.a. í sjálfsvígi. Hún starfar sem sjálfboðaliði í Áfalla- og viðbragðsteymi Rauða krossins og hefur auk þess sinnt sjálfboðnu starfi með hælisleitendum og flóttamönnum, nú síðast sálgæslu í Fjöldahjálparstöð Rauða krossins fyrir flóttamenn. Í gegnum árin hefur Jóhanna María einnig leitt verkefni á vegum ríkisins í geðheilbrigðis- og eineltismálum, auk þess að starfa í þágu samtaka á sviði geðheilbrigðis og sjálfsvígsforvarna. Í dag starfrækir hún einnig námskeið fyrir börn og unglinga í grunnskólum sem eiga erfiða reynslu að baki og standa höllum fæti í skólakerfinu.

Jóhanna María missti fyrrverandi eiginmann og barnsfaðir tveggja drengja þeirra úr sjálfsvígi árið 2010.

Jóhanna María sinnir stuðningshópastarfi fyrir þau sem hafa misst ástvin í sjálfsvígi.

K. Hulda Guðmundsdóttir

Hulda er með MA í guðfræði frá H.Í. Hún hefur um árabil stýrt stuðningshópum fyrir þau sem misst hafa maka en sjálf misst hún eiginmann árið 1998 eftir erfið veikindi, frá ungum börnum. 
Hulda var um árabil formaður Nýrrar dögunar og var meðal hvatamanna að stofnun Sorgarmiðstöðvar og fyrsti formaðurinn. Í dag er Hulda gjaldkeri stjórnar.
Hulda leiðir stuðningshópastarf fyrir þau sem misst hafa maka. 

Karólína Helga Símonardóttir 

Karólína Helga er framhaldsskólakennari og með próf í opinberri stjórnsýslu.
Hún missti eiginmann sinn árið 2017 en hann var bráðkvaddur. Karólína Helga hefur verið ötull talsmaður fyrir stuðning við ungar ekkjur og ekkla á opinberum vettvangi sem og stuðning við börn í sorg. Hún sat í stjórn Ljónshjarta frá árinu 2017 til ársins 2021 og í stjórn Sorgarmiðstöðvar frá árinu 2021 til ársins 2023.
Karólína Helga stýrir stuðningshópi fyrir makamissi og einni stuðningshópi fyrir þau sem missa fyrrverandi maka og eiga börn í sorg.

Kristín Kristjánsdóttir

Kristín er djákni, með diplómanám í sálgæslu og diplómanám í handleiðslu. Hún hefur víðtæka reynslu í sálgæslu og handleiðslu syrgjenda. Kristín hefur í mörg ár leitt stuðningshópa meðal annars fyrir foreldra og ástvini sem hafa misst langveik börn. Einnig hópa fyrir fólk sem misst hefur á meðgöngu, fyrir aðstandendur sem misst hafa í sjálfsvígi og fyrir ömmur og afa í sorg. Sjálf hefur Kristín reynslu af sárum missi en hún missti dóttur sína árið 1996 sem var langveik og  barnabarn sitt árið 2010 í slysi.
Kristín hefur frá árinu 1996 komið að málefnum langveikra barna þá sérstaklega gegnum Umhyggju og Neistan.

Lilja Sif Þórisdóttir

Lilja Sif Þórisdóttir er félagsráðgjafi og  útskrifaðist með meistarapróf frá Gautaborgarháskóla. Undanfarin ár hefur hún starfað í heilbrigðiskerfinu og þá mestmegnis á Sjúkrahúsi Akureyrar. Á þeim vettvangi fann hún hvað sorg og áföll spila stóran sess í starfinu og sótti hún sér viðbótardiplómu í sálgæslufræðum frá EHÍ. Lilja Sif starfar nú sem félagsráðgjafi á HSN Akureyri og sinnir einnig hópastarfi hjá Sorgarmiðstöð.

Lóa Björk Ólafsdóttir

Lóa starfar sem hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Krabbameinsfélaginu og vann í mörg ár við sérhæfða  líknarþjónustu í heimahúsum. Hún hefur langa reynslu af vinnu með fjölskyldum sem takast á við sorg og erfiðar tilfinningar í alvarlegum veikindum og við ástvinamissi.
Lóa sat í stjórn Lífsins-samtaka um líknarmeðferð um árabil.
Lóa hefur lokið kúrsum á diplóma og meistarastigi í endurmenntun Háskóla Íslands, meðal annars í líknarhjúkrun og sálgæslu. Lóa er Jóga Nidra leiðbeinandi og brennur fyrir því að miðla áfram slökun og hugleiðslu til að auka vellíðan og takast á við áksoranir í daglegu lífi.
Lóa hefur frá árinu 2016 leitt stuðningshópa fyrir þau sem misst hafa maka.

Selma Lind Árnadóttir

Selma Lind Árnadóttir er 20 ára gömul og hefur lokið námi frá Verslunarskóla Íslands. Hún hefur lokið hópstjóraþjálfun hjá Sorgarmiðstöð og einnig útskrifast sem jafningi hjá Sorgarmiðstöð. Selma Lind var viðmælandi í sjónvarpsþáttunum MISSIR og ræddi þar reynslu sína af foreldramissir en hún missti föður sinn 9 ára gömul. Selma Lind hefur verið sjálfboðaliði hjá Ljónshjarta í gegnum árin og hitt börn og ungmenni í sömu stöðu en einnig hefur hún verið sjálfboðaliði á námskeiði fyrir börn og ungmenni í sorg hjá Sorgarmiðstöð.  

Sigríður Kristín Helgadóttir

Sigríður Kristín lauk embættisprófi frá Guðfræðideild HÍ árið 2000.  Hún hefur starfað sem prestur frá útskrift auk þess sem hún starfaði hjá Barnavernd um tíma.  Árið 2011 jók Sigríður Kristín við sig nám og lauk prófi í Fjölskyldumeðferðarfræði. Sigríður Kristín hefur mikla reynslu í sálgæslu og stuðningi við syrgjendur. Hún hefur um nokkura ára skeið leitt stuðningshópa fyrir syrgjendur fyrst hjá Ljónshjarta og nú hjá Sorgarmiðstöð. Sigríður Kristín hefur stýrt stuðningshópum fyrir makamissi og systkinamissi.

Stefán Þór Gunnarsson

Stefán Þór Gunnarsson stýrir stuðningshópum fyrir aðstandendur sem misst hafa vegna fíknar. Sjálfur hefur hann reynslu af barnsmissi en hann missti son sinn árið 2018.

Stefán hefur starfað við ferðaþjónustu undanfarin ár en ásamst því er hann virkur í öðrum sjálfboðaliða samtökum sem hafa þann tilgang að hjálpa fólki vegna fíknar.

Steinunn Sigurþórsdóttir

Steinunn er kennari með diplómu í sérkennslu og starfar sem deildarstjóri í grunnskóla. Hún hefur unnið að velferð syrgjenda í mörg ár. Hún sat í stjórn Nýrrar dögunar, stuðningur í sorg í tíu ár og var í vinnuhópi sem kom að stofnun Sorgarmiðstöðvar. Steinunn tók þátt í vinnu við breytingar á lögum sem tryggja réttindi barna sem missa foreldri.  Steinunn hefur stýrt stuðningshópum vegna barnsmissis frá árinu 2010, hún missti sjálf son í bílslysi árið 2008. Hún hefur einnig stýrt stuðningshópum vegna foreldramissis frá árinu 2014 en sjálf var hún ung að aldri þegar hún missti foreldri.

Lokað yfir hátíðirnar

Sorgarmiðstöð verður lokuð frá 25. desember til 2. janúar. Ef erindið er brýnt má hringja í neyðarsíma okkar 862 4141

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira