Hér munum við birta fræðsluerindi sem vonandi gagnast syrgjendum og aðstandendum þeirra.
Að missa ástvin skyndilega
Það er sársaukafullt að missa ástvin skyndilega. Okkur er ýtt út í úrvinnslu tilfinninga sem virðast oft á tíðum stjórnlausar, sérstaklega í byrjun. Við þurfum mikinn stuðning og utanumhald frá okkar nánustu og jafnvel fagaðila líka. Við þurfum að hlúa vel að okkur og reyna nýta þau bjargráð sem geta gagnast okkur í sorgarferlinu.
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur flytur erindið „Að missa ástvin skyndilega”. Hún hefur reynslu af skyndilegum ástvinamissi og sinnir stuðningshópastarfi í Sorgarmiðstöð. Í erindinu er farið yfir helstu atriði sem nýtast í sorgarúrvinnslunni og hvernig við getum styrkt okkur eða okkar nánustu sem best í því ferli.
Þegar gleðin breytist í sorg; fósturmissir
Hún Soffía Bæringsdóttir tók aftur upp erindið sitt þar sem fjallað er um sorgina sem fylgir missi á meðgöngu undir 12 vikum. Sorgin sem er svo vanmetin og ósýnileg.
Soffía er fjölskyldufræðingur MA og starfar sem slíkur við para- og fjölskyldumeðferð. Hún er einnig doula og hefur áralanga reynslu af því að styðja við nýja foreldra. Soffía hefur reynslu af sárum missi og sinnir stuðningshópastarfi í Sorgarmiðstöð.
Að syrgja ástvin sem notaði vímuefni
Dr. Helga Sif Friðjónsdóttir fjallar um þróun vímuefnavanda, þá krafta sem þurfa að liggja til grundvallar hegðunarbreytingum, sjúkdómshugtakið og sorgarferlið og þær tilfinningar sem mögulega bærast innra með fólki sem missir ástvin vegna afleiðinga vímuefnanotkunar.
Dr. Helga Sif Friðjónsdóttir er með sérfræðingsleyfi í geðhjúkrun með áherslu á fíknisjúkdóma ásamt því að vera með meistara- og doktorsgráðu í geðhjúkrun frá Washington University. Hún hefur starfað sem hjúkrunardeildarstjóri fíknigeðdeildar geðsviðs og deildarstjóri göngudeildar geðþjónustu Landspítala og starfar nú í Heilbrigðisráðuneytinu ásamt því að vera faglegur bakhjarl Frú Ragnheiðar í sjálfboðavinnu. Hún er eftirsóttur fyrirlesari og hefur meðal annars haldið erindi um hjúkrun einstaklinga með fíknivanda, skaðaminnkun o.fl.
Ráðstefna Sorgarmiðstöðvar um skyndilegan missi
Hvað getum við gert betur fyrir þau sem missa ástvin skyndilega? Ráðstefnan er fyrir syrgjendur, aðstandendur og alla þá fagaðila sem vinna að velferð þeirra.
Ráðstefnan var haldin 31. ágúst 2022. Freyr Eyjólfsson er fundarstjóri.
Erindi:
- Setning ráðstefnu Alma Möller landlæknir og verndari Sorgarmiðstöðvar
- Sorgarorlof – tilurð og hagnýtar upplýsingar Guðmundur Ingi Guðbrandsson Félags- og vinnumarkaðsráðherra
- Tölur og staðreyndir Anton Örn Karlsson deildarstjóri hjá Hagstofunni
- Á vettvangi skyndilegs andláts Stefnir Snorrason varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins
- Sálræn fyrsta hjálp Álfheiður Svana Kristjánsdóttir og Elfa Dögg Leifsdóttir verkefnastjórar hjá Rauða krossinum
- Viðbragðsáætlun á vinnustað Inga Berg Gísladóttir verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis
- Reynsla af skyndilegum missi Kolbeinn Elí Pétusson aðstandandi
- Hjálp48 verkefnið Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir fagstjóri Sorgarmiðstöðvar
- Pallborðsumræður
Hér er hægt að nálgast það efni sem var afhent á ráðstefnunni
Um 450 einstaklingar sóttu ráðstefnuna um 30% voru í sal en 70% streymi. Eftir ráðstefnuna var ráðstefnugestum sendur spurningalisti eða mat á ráðstefnunni. Almenn ánægja var með ráðstefnuna bæði efnistök, fyrirlesara og framkvæmd. Af þeim sem svörðuðu matinu voru 80% gesta af höfuðborgarsvæðin, um 57% þeirra sem fylgdust með ráðstefnunni gerðu það vegna starfs síns, 11% höfðu sjálfir reynslu af skyndilegum missi og 29% hlýddu á ráðstefnuna af bæði vegna faglegs áhuga og vegna reynslu af skyndilegum missi, 3% nefndu aðrar ástæður.