Stofnsamþykktir Sorgarmiðstöðvar

1. gr.
Nafn og aðsetur

Félagið heitir Sorgarmiðstöð. Aðsetur þess er á heimili gjaldkera hverju sinni.

2. gr.
Tilgangur Sorgarmiðstöðvar

Tilgangur Sorgarmiðstöðvar er að styðja syrgjendur og þá sem vinna að velferð þeirra.

Tilgangi sínum hyggst Sorgarmiðstöð ná með því að:
a) Reka heimasíðuna – www.sorgarmidstod.is þar sem syrgjendur fá stuðning, fræðslu, ráðgjöf og geta fundið úrræði/bjargráð sem þeim bjóðast.
b) Vinna að uppbyggingu Sorgarmiðstöðvar m.a. með styrkumsóknum og fjáröflun til starfseminnar.

3. gr.
Aðild að Sorgarmiðstöð

Aðild að Sorgarmiðstöð eiga Ný dögun (kt.441091-1689), Gleym mér ei (kt.501013-1290), Ljónshjarta (kt.601213-0950) og Birta,landssamtök (kt.670514-1010).

4.gr.
Helstu verkefni Sorgarmiðstöðvar

Tilgangi Sorgarmiðstöðvar skal meðal annars náð með náinni samvinnu aðildarfélaganna fjögurra sem öll hlúa að syrgjendum eftir ástvinamissi.

Helstu verkefni Sorgarmiðstöðvar eru:
I. Stuðningur, ráðgjöf og fræðsla til syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð þeirra. Miðlað m.a. á heimasíðu – www.sorgarmiðstod.is
II. Rekstur viðburðadagatals þar sem eru upplýsingar um alla viðburði og úrræði sem aðildarfélögin bjóða upp á fyrir syrgjendur.
III. Þekkingaruppbygging á sviði sorgarúvinnslu og stuðnings við aðstandendur. Fyrir skóla, viðbragðsaðila o.fl.
IV. Útgáfa/dreifing fræðsluefnis um sorg og sorgarviðbrögð.
V. Vinna að uppbyggingu og þróun Sorgarmiðstöðvar.

5. gr.
Aðalfundur Sorgarmiðstöðvar

Aðalfundur Sorgarmiðstöðvar fer með æðsta vald í málefnum hennar og skal halda hann árlega eigi síðar en í maí ár hvert. Formaður skal boða til aðalfundar með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti og skal fundarefnis getið í fundarboði. Aðalfundur er löglegur ef rétt er til hans boðað. Fundarboði skal fylgja skrifleg skýrsla stjórnar ásamt ársreikningi árituðum af endurskoðanda samtakanna.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Afgreiðsla ársreiknings síðastliðins árs.
4. Fjárhagsáætlun yfirstandandi árs.
5. Kosning formanns.
6. Kosning endurskoðanda.
7. Önnur mál.
Starfstímabil og reikningsár Sorgarmiðstöðvar er almanaksárið.

6. gr.
Stjórn Sorgarmiðstöðvar

Stjórn Sorgarmiðstöðvar skal skipuð einum einstaklingi frá hverju aðildarfélagi. Hvert þeirra tilnefnir líka einn varamann fyrir sinn stjórnarmann. Stjórnarfundur er löglegur ef einfaldur meirihluti stjórnarmanna sækir fundinn. Á stjórnarfundum fer hver fulltrúi með eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti úrslitum atkvæðagreiðslu. Falli atkvæði jafnt, ræður atkvæði formanns. Stjórn Sorgarmiðstöðvar fer með málefni hennar á milli aðalfunda og kýs sér formann, gjaldkera og ritara. Stjórn skal hafa með höndum skipulag og eftirlit með störfum Sorgarmiðstöðvar á milli aðalfunda. Stjórn skal rita fundargerðir þar sem bókaðar skulu niðurstöður hvers máls sem tekið er fyrir á fundi.

7. gr.
Fjármögnun Sorgarmiðstöðvar

Stjórn gerir tillögur um og ber ábyrgð á fjáröflun til rekstrar Sorgarmiðstöðvar, m.a. með með félagsgjöldum og styrktarumsóknum. Gjaldkeri ber ábyrgð á vörslu og meðferð fjármuna í samstarfi við aðra stjórnarmenn. Jafnframt bera gjaldkeri og stjórn ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar til rekstrarins frá ári til árs.

8. gr.
Meðferð viðkvæmra upplýsinga

Fara skal með allar viðkvæmar persónuupplýsingar í tengslum við rekstur Sorgarmiðstöðvar sem trúnaðarmál og skal meðferð þeirra ávallt vera í samræmi við gildandi ákvæði laga hverju sinni, svo sem laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Öflun gagna og upplýsinga fyrir Sorgarmiðstöð skal unnin í samvinnu við viðkomandi einstakling ef þörf reynist.

9. gr.
Breytingar á samþykktum þessum

Samþykktum þessum má breyta með atkvæðum 2/3 hluta allra aðildarfélaganna á aðalfundi og skal breytingartillagna getið og þeim lýst í fundarboði. Breytingartillögur skulu sendar formanni stjórnarí seinasta lagi 1. apríl til afgreiðslu á aðalfundi.

10. gr.
Þátttaka í Sorgarmiðstöð

Forsenda fyrir aðild að Sorgarmiðstöð er að fulltrúi aðildarfélags eða varamaður hans mæti á alla stjórnarfundi ár hvert.

11. gr.
Umsókn um aðild að Sorgarmiðstöð

Félög eða samtök með samhljóma markmið og Sorgarmiðstöð geta skriflega sótt umaðild að Sorgarmiðstöð, með bréfpósti eða tölvupósti. Umsókn þarf að berast formanni eigi síðar en í mars til að hægt sé að taka afstöðu til hennar á aðalfundi.

12. gr.
Aðildarfélag hættir í Sorgarmiðstöð

Aðildarfélag getur sagt sig úr Sorgarmiðstöð með tilkynningu til formanns Sorgarmiðstöðvar. Aðildarfélag sem ekki hefur hefur átt virkan fulltrúa í stjórn Sorgarmiðstöðvar tvö starfsár í röð fellur sjálfkrafa úr samtökunum.

13. gr.
Slit Sorgarmiðstöðvar

Við slit Sorgarmiðstöðvar renna eignir hennar í jöfnum hlutföllum til aðildarfélaga. Samþykktir þessar voru samþykktar á stofnfundi Sorgarmiðstöðvar og undirritaðar þann 6. nóvember árið 2018.