Almennt um sorg

Hvað er sorg?

Ekkert okkar kemst í gegnum lífið án þess að kynnast sorginni. Hún er sammannleg tilfinning og eðlilegt viðbragð við missi sem felst í tilfinningalegum og líkamlegum einkennum.

Sorgin tekur á sig ýmsar myndir og á hún sér uppruna í því að vonir og væntingar hafa brugðist og framtíðaráform raskast.

Fólk upplifir sorg á mismunandi hátt tengt eftirfarandi þáttum: Tegund sorgar, tengslum við hinn látna, fyrri reynslu, trúarskoðunum, aldri og kyni syrgjandans. Konur tjá sig oft meira um sorgina en karlar, sérstaklega um depurð og ótta.

Mikill dagamunur getur verið á líðan fólks í sorg og tilfinningasveiflur töluverðar. Sterkar og áður óþekktar tilfinningar geta skapað óöryggi og kvíða hjá syrgjendum sem þurfa undir þeim kringumstæðum að mæta stuðningi og umhyggju umhverfisins, vina, fjölskyldu og vinnufélaga.

Þrátt fyrir að sorgin geti verið mjög sársaukafull þá er hún mikilvægt skref í áttina að því bataferli sem er nauðsynlegt eftir missi. Sorg er ekki atburður, heldur ferli sem getur tekið langan tíma. Hún er hluti heilbrigðs lífs og henni þarf að finna farveg sem miðar að því að læra að lifa við missinn. Að finna þennan farveg getur reynst flókið og tekið langan tíma.

Mörgum hefur reynst vel að leita skilnings og stuðnings bæði hjá fagfólki og einnig meðal þeirra sem skilja af eigin raun hvað við er að etja.

Líkamleg viðbrögð

Líkamlegar breytingar, sem svipa til líkamlegra sjúkdóma, eru algengar í sorgarferlinu og geta valdið syrgjendum áhyggjum um að ofan á allt séu þeir líka orðnir alvarlega veikir. Sorgin er ekki sjúkdómur heldur bregst líkaminn við sorginni á þennan hátt. Einkenni eins og að eiga erfitt með öndun, hjartsláttartruflanir, herpingur í brjósti, meltingartruflanir, höfuðkvillar, svimaköst, sjóntruflanir, svitaaukning, lystarleysi, grátköst, munnþurrkur, andarteppa, þróttleysi, vöðvaslappleiki, viðkvæmi fyrir hávaða, svefntruflanir, óróleiki og pirringur eru einkenni sem margir syrgjendur verða varir við.

Algengir fylgifiskar sorgarinnar eru ennfremur einbeitingarleysi, minnisleysi, þreyta og úthaldsleysi. Ekki er hægt að útiloka að um sjúkdóma sé að ræða og ættu syrgjendur því að leita læknis ef þeir telja svo vera.

Sorgarúrvinnsla

Sorgargangan er löng og ströng. Henni verður ekki markaður tími og að öllum líkindum verður hún alla tíð hluti af lífsgöngu þess sem misst hefur ástvin sinn. En með því að gangast við erfiðum tilfinningum og líkamlegri vanlíðan og sporna ekki við þeim, öðlast syrgjandinn aukinn styrk til að takast á við sorgina. Látinn ástvinur mun ávallt eiga sér stað í hjarta þeirra sem eftir lifa, en mikilvægt er að feta veginn áfram og finna nýjum tengslum stað við hlið hinna þegar frá líður.

Ein leið til þess að horfast í augu við vanlíðan sína er að eiga sér trúnaðarmann sem er tilbúinn að hlusta og sýna hlýju. Oft hefur fólk mikla þörf fyrir að ræða um hinn látna og ýmislegt sem andlátinu tengist. Þá er gott að eiga sér eyra sem hlustar.

Markviss fagleg fræðsla um sorg og sorgarviðbrögð getur einnig skipt höfuðmáli á leiðinni til sjálfshjálpar eftir átakanlegan missi. Á þann hátt öðlast syrgjandinn frekari skilning á líðan sinni sem hjálpar honum að sættast við tilfinningar sínar og takast á við lífið. Nauðsynlegt og sjálfsagt getur verið að leita sér aðstoðar fagfólks, s.s. presta, listmeðferðafræðinga, félagsráðgjafa, sálfræðinga eða geðlækna.

Flestir syrgjendur hafa staðið frammi fyrir því að vita ekki hvernig þeir eigi að komast í gegnum daginn og hafa enga trú á að líðan þeirra eigi eftir að batna eða þeir taki gleði sína á ný. En smám saman fækkar þeim dögum sem litaðir eru af vonleysi og depurð og andleg og líkamleg líðan batnar.

Lífið verður aftur þess virði að lifa því. Sárin gróa en eftir situr ör missis sem syrgjandinn lærir að lifa með. Söknuðurinn hverfur aldrei og minningin um hinn látna lifir áfram. Átakanleg og sársaukafull reynsla getur gert okkur hæfari til að lifa með kærleika, umburðarlyndi og þakklæti að leiðarljósi.

10 Staðreyndir um sorg

Sorg er eðlileg

Miklum missi fylgir sorg. Við syrgjum þegar einhver nákominn okkur deyr. Sorgin er þáttur í söknuði okkar og aðlögun að nýju lífi. Þótt sorg sé eðlilegt ferli er hún ein af erfiðustu tilfinningunum sem við finnum fyrir.

Þín sorg er versta sorgin

Eigin sorg er ætíð sú erfiðasta, hvort sem við missum maka, barn, foreldri eða systkini og hvernig sem missinn ber að – skyndilega eða eftir veikindi.

Leiðin út úr sorginni
er í gegnum hana

Sorgin er sársaukafull. Ástvinamissir er eitt erfiðasta áfallið sem við verðum fyrir og það er engin auðveld leið til að halda áfram. Við gætum reynt að forðast sársaukann, komast sem fyrst í gegnum sorgina en það er ekki hægt. Við verðum að finna hugrekki til að lifa með sorginni.

Sorgin er nátengd sambandinu við
þann sem fallinn er frá

Samband okkar við aðra manneskju er alltaf einstakt og hefur ákveðið gildi fyrir okkur. Ef við viljum skilja viðbrögð okkar við sorginni til fulls þurfum við að átta okkur á því hvert samband okkar við hinn látna var og þar af leiðandi hvað það er sem við erum að missa. Við syrgjum maka á annan hátt en barn, vin eða foreldri. Ástvinamissir verkar á okkur með ólíkum hætti og því syrgjum við á mismunandi hátt.

Sorgarferlið er mikil vinna

Sorgarúrvinnsla krefst mikillar orku, oftast mun meiri en fólk býst við. Hún tekur á jafnt líkamlega sem andlega.

Sorgarferlið tekur langan tíma

Fyrstu mánuðurnir eru yfirleitt afar tilfinningaþrungnir. Fyrsta árið er erfitt – allt minnir á missinn, til dæmis fyrstu jólin, afmælisdagar, þegar ár er liðið frá andláti og enn fleiri viðburðir. Allir þessir dagar eru erfiðir en við verðum að sjá fram úr þeim, vita að þeir eru eðlilegir og sýna sjálfum okkur samúð. Sumir kalla annað árið ár einmanaleikans. Það er þá sem við gerum okkur enn frekar grein fyrir því að lífið er og verður alltaf án þess sem fallinn er frá.

Sorgin er óútreiknanleg

Syrgjandi gengur í gegnum margvíslegar tilfinningar og hegðun. Ekki einungis þær sem almennt eru tengdar við sorg svo sem depurð eða grát, heldur getur margt sem hann gerir og hugsar um verið gjörólíkt honum. Þegar syrgjandinn heldur að hann hafi náð tökum á sorginni gerist allt í einu eitthvað honum að óvörum. Það eina sem er öruggt við sorgina er að hún er óútreiknanleg.

Oft þarf að takast á við annars konar missi

Andlát maka getur leitt til margvíslegra annarra breytinga á lífi manns. Margir missa um leið fjárhagslegt öryggi, heimili sitt eða jafnvel sjálfstæði. Draumar um framtíðina hverfa eins og dögg fyrir sólu, t.d. um að lifa hamingjusöm til æviloka eða verja efri árum saman. Þetta kallar allt á sorgarviðbrögð.

Sorgin kemur og fer

Í fyrstu finnur syrgjandinn ekki alltaf til mikils sársauka því að hann er dofinn og í áfalli. Oft verður sársaukinn dýpri eftir nokkra mánuði. Sorgarferlið getur verið eins og rússíbanareið. Einn daginn líður syrgjandanum ágætlega en þann næsta er hann langt niðri. Einmitt þegar hann heldur að hann sé að komast yfir sorgina læðist að honum mikil depurð. Þeir sem ekki gera sér grein fyrir þessu ferli gætu orðið fyrir miklum vonbrigðum með bakslagið en það er mikilvægt að átta sig á því að sorgarferlinu vindur svona fram.

Sorgarúrvinnslan verður áhrifaríkust með aðstoð

Fólk hefur oft óraunhæfar hugmyndir um sorgina og getur brugðist við með óviðeigandi hætti. Fæstir skilja hvernig sorgarferlið gengur fyrir sig og búast við að syrgjandinn jafni sig nokkuð fljótt. Fólk getur virst ónærgætið en í raun heldur það oft að sorgin sé svo persónuleg að það eigi ekki að ræða hana. Því finnst óþægilegt að vera í návist við syrgjandann og eftir jarðarförina er hinn látni jafnvel ekki nefndur á nafn því að fólk óttast að segja eitthvað óviðeigandi. Það vill vel en syrgjandi sem finnur slíkar óraunhæfar væntingar á það til að draga sig í hlé. Það er gott að leita til fagaðila eða finna fólk sem deilir svipaðri eða sömu reynslu. Það getur verið mjög hjálplegt að ræða við einhvern sem skilur sorgina og að hún snýst um að lifa með missinum.

Algengar spurningar

Sorg er mjög sársaukafull tilfinning sem fylgir missi. Hún er ferli, ákveðin vegferð sem endar ekki á ákveðnum tíma eða degi heldur er hún afar persónuleg. Sorg er eins raunveruleg og missirinn sem hún sprettur af, eins raunveruleg og manneskjan sem við misstum. Söknuðurinn sem fylgir missinum er yfirþyrmandi vegna þess að sorgin er andstæða þeirrar ástar sem við nutum en er nú horfin.

Við höldum að við viljum forðast sorgina en í raun er það sársaukinn sem við viljum forðast. Sorgin er heilunarferli sem leiðir til huggunar.

Sorg er ekki bara röð atburða, stig eða tímalína. Samfélagið setur gríðarlega pressu á okkur að komast yfir sorgina, fara í gegnum hana. Hversu lengi syrgir ekkja eiginmann sinn til 50 ára? Eða foreldrar ungling sem deyr í slysi? Eða fjögurra ára gamalt barn sitt ? Eitt ár? Fimm ár? Að eilífu? Sorginni lýkur ekki heldur fylgir hún okkur alla ævi en við lærum að lifa með sorginni.

Stigin fimm (tilfinningar sorgar) eru hluti af því ferli að læra að lifa án ástvinar. Þau hjálpa okkur að átta okkur á og ramma inn tilfinningar okkar hverju sinni. En þau eru ekki í ákveðinni röð og það fara ekki heldur allir í gegnum öll fimm stigin (allar tilfinningarnar). Við höfum öðlast meiri skilning á ferlinu frá því að stigin voru fyrst skilgreind. Þeim var aldrei ætlað að pakka tætingslegum tilfinningum saman í nettan böggul heldur er þeim ætlað að lýsa viðbrögðum margra þeirra sem verða fyrir missi. Það er ekki til neitt sem heitir dæmigerð viðbrögð enda er ekki til neinn dæmigerður missir. Sorg okkar er persónubundin rétt eins og lífið sjálft.

Afneitun er yfirleitt fyrsta skrefið í sorgarferlinu. Hún hjálpar okkur að komast yfir missinn. Á þessu stigi er sem heimurinn sé svartur og kaldur og lífið hafi engan tilgang. Við verðum dofin og veltum því fyrir okkur hvernig við eigum að fara að því að halda áfram að lifa. Afneitunin hjálpar okkur á þessum erfiða tíma þegar eina markmiðið er að komast í gegnum daginn. Hún er í hnotskurn úrræði manns til að takast á við og meta þessar erfiðu aðstæður.

Þessar tilfinningar eru mikilvægar; þær eru varnarkefi sálarinnar. Okkur er um megn að takast á við tilfinningarótið sem fylgir missinum.

Ef börn geta elskað eru þau líka fær um að syrgja. Sem dæmi má nefna að þegar foreldri fellur frá þarf það foreldri sem eftir lifir að sinna um sorg barnsins. Foreldrið þarf jafnframt að huga að eigin sorg og horfast í augu við það að vera orðið einstætt foreldri. Það þarf, rétt eins og barnið, að fá stuðning í sorginni. Börn syrgja á annan hátt en fullorðnir. Þau tala ekki endilega mikið um tilfinningar sínar. Dauði í fjölskyldu barns verður oft til þess að því finnst það vera öðru vísi en önnur börn. Börnum líður oft eins og þau séu frábrugðin öðrum en dauðsfall eykur oft á þessa tilfinningu og barni sem missir náinn aðstandanda finnst það oft vera enn meira einangrað.

Stuðningshópar fyrir syrgjendur eru mikilvægir og þeir eru líka mjög hjálplegir börnum. Þar hitta þau önnur börn sem deila reynslu þeirra.

Sorg er heilunarferli sem hjálpar okkur að takast á við missinn. Sorgarferlið hefur ekki skýrt upphaf eða endi heldur er það endurvarp fjölda tilfinninga og kennda sem hverfast um missinn. Sorgin fellur að og fjarar út lífið á enda. Við komumst ekki yfir ástvinamissinn en við lærum að lifa með honum. Hver og einn syrgir eins lengi og hann þarf. Einhvern tímann kemur að því að við getum minnst ástvinar án þess að finna til.

Velviljað fólk spyr oft manneskju sem er í mikilli sorg hvað það getur gert til að hjálpa. Í djúpri sorg er fólk oft týnt og ber ekki skynbragð á hvað gæti orðið til hjálpar. Það er allt í lagi að spyrja en það er jafnvel betra að bjóðast til að taka að sér tiltekið verk eða að stíga bara inn í og hjálpa á einhvern hátt. Ef það þarf að vaska upp, fara út með ruslið, þrífa bílinn– gerðu það þá. Færðu þeim sem syrgir mat, eldaðu eitthvað gott og farðu með til viðkomandi. Það er hægt að bjóðast til að ná í krakkana, skutla þeim, fara í búð og og gera margvíslega hversdagslega hluti sem létta undir með þeim sem syrgir. Fleiri hugmyndir er hægt að finna hér.

Margir eru á þeirri skoðun að börn eigi ekki að vera við jarðarfarir, ýmist vegna þess að þeir telja að það geti valdið barninu hugarangri eða að barnið geti truflað athöfnina. Sannleikurinn er sá að það er oftast gott að leyfa barni að vera við jarðarför en nokkur atriði ætti að hafa í huga. Það þarf að búa barn undir athöfnina, segja því hvernig athöfnin fer fram, hvað hún verður löng, hvar barnið á að sitja og að það verði að öllum líkindum grátið. Mjög gott er að fá að heimsækja kirkjuna þar sem ástvinur verður jarðsunginn í áður. Vilji barn fara eftir að athöfnin hefst ætti það að virða það. Einnig ætti að virða ósk barns sem segist ekki vilja vera við jarðarför. Sé barnið nógu gamalt má segja við það að þetta sé góð leið tl að kveðja þann sem er látinn. Það er mikilvægt að barnið fái stuðning og hafi einhvern til að hugga sig. Þú skalt vera búin/-n að biðja einhvern annan að vera til staðar fyrir barnið þitt ef þú skyldir ekki treysta þér til að gera það sjálf/-ur. Að jarðarförinni lokinni skaltu ræða um hana við barnið og fá það til að segja þér sína upplifun og hvaða þýðingu hún hafði fyrir það.

Það kostar ekkert að koma í hópastarf hjá Sorgarmiðstöð.

LÍFSGÆÐASETUR Í ST. JÓ

SUÐURGATA 41, 220 HAFNARFJÖRÐUR

sorgarmidstod@sorgarmidstod.is

Sími: 551 4141

Landlæknisembættið er verndari Sorgarmiðstöðvar

COMING SOON

wkrótce

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira