Þegar barnsfaðir Ingu Helgu Sveinsdóttur lést eftir harða baráttu við krabbamein ákvað hún strax að sækja alla þá aðstoð sem hún mögulega gæti fyrir börnin sín tvö, sem þá voru 8 og 10 ára gömul. Sonur hennar náði fallegum áfanga í sínu sorgarferli eftir námskeið fyrir börn hjá Sorgarmiðstöð.
„Við vorum skilin en barnsfaðir minn lést eftir þriggja ára baráttu við krabbamein. Síðan eru liðin tvö og hálft ár en sorgarferli barnanna hófst auðvitað áður en pabbi þeirra lést þegar ljóst var í hvað stefndi. Ég hef verið að gera allt sem ég get til að hjálpa þeim að vinna úr þessum áföllum, bæði veikindunum og andlátinu. Þau hafa tekist á við þetta á ólíkan hátt. Elisabeth talaði um þetta en Patrick eiginlega bara alls ekki. Það má eiginlega segja að ég sé búin að pína hann frekar mikið þegar kemur að úrvinnslunni, námskeiðum sem við höfum sótt og þess háttar. Hann hefur bara viljað leika við vini sína, sem er auðvitað gott inn á milli, en það þarf líka að ávarpa sorgina. Hún hefur áhrif á svo margt. Námið, félagsleg tengsl og allt annað,“ útskýrir Inga Helga.
Langaði ekki að fara eitthvert til að gráta
Börn takast á við sorg á ólíkan hátt. Það fer eftir aldri þeirra og þroska, persónuleika hvers og eins en einnig hefur áhrif á ferlið hvernig andlátið bar að, hvort það varð snögglega eða eftir löng veikindi. Inga segir börn í þessu ferli öll eiga það þó sameiginlegt að þarfnast þess að upplifa að þau séu ekki ein og því geti verið mikilvægt fyrir þau að kynnast öðrum börnum sem eru í svipuðum sporum og þau sjálf.
„Ég man að þegar ég skráði börnin mín fyrst á námskeið þá sagði sonur minn að hann langaði ekkert til að fara eitthvert til þess að gráta. En það er líka gott að gráta, það verður að vera hægt að hleypa tilfinningunum út. Þegar pabbi þeirra lést eftir mikil veikindi upplifðu þau sorg en líka létti yfir því að hann væri ekki veikur lengur. Og svo samviskubit yfir því að upplifa létti. Það var eitthvað sem vinir þeirra og börnin í kringum þau skildu oft ekki. Hvernig þau gátu til dæmis hlegið að einhverju stuttu eftir að pabbi þeirra dó. Þá fengu þau samviskubit yfir því, að leyfa sér að hlæja. En þarna eru allskonar tilfinningar sem geta verið flóknar. Það er erfitt og sorglegt þegar pabbi manns deyr, það er gaman að leika við vini sína og þeim er létt að hann sé ekki lengur veikur því það var þeim mjög erfitt að sjá hann svona á sig kominn.“
Mikilvægt að fá stuðning
Inga fór með börnin á stuðningsnámskeið á meðan á veikindum föður þeirra stóð og þau hafa líka sótt fleiri námskeið eftir að hann lést. Þau færast smám saman áfram en hún segir stóran áfanga hafa náðst eftir að þau sóttu námskeið hjá Sorgarmiðstöð, sem henni þykir vænt um.
„Við upphaf námskeiðsins fórum við fullorðna fólkið á kynningarfund á meðan krakkarnir sem tóku þátt kynntust í öðru herbergi. Þau fóru með mynd af pabba sínum og settu hana í ramma sem þau svo skreyttu. Á námskeiðinu skreyttu þau líka fallegt kerti, fóru í göngutúr niður í fjöru og söfnuðu steinum sem þau máluðu. Þau gengu líka saman að Sorgartrénu í Hellisgerði. Það sem mér þykir svo stór áfangi eftir námskeiðið er að sonur minn setti mynd af pabba sínum upp á hillu inni í herberginu sínu, nokkuð sem hann vildi ekki gera áður. Hann hafði áður haft grafskriftina úr jarðarförinni ofan í skúffu inni í herberginu sínu. Ég rakst reyndar á hana fyrir rúmu ári síðan ofan í ruslafötunni en spurði hann hvort hann vildi hafa hana þar. Þá tók hann hana og setti aftur ofan í skúffu. Grafskriftin er núna komin upp á hillu ásamt myndinni og því sem hann bjó til á námskeiðinu í Sorgarmiðstöð.“
Inga segir námskeið Sorgarmiðstöðvar vera mjög mikilvægt fyrir börn í sorg.
„Þeim langar ekkert endilega til að fara en það er mikilvægt fyrir þau. Ég sé það líka með dóttur mína, hvað hún hefur haft gott af þessu þrátt fyrir að takast á við missinn á annan hátt en bróðir sinn og hafa átt auðveldara með að tala um pabba sinn. Ég sé það sem mikilvæga skyldu mína sem foreldri að sækja alla þá aðstoð sem ég get fyrir þau því ég veit hvað það skiptir miklu máli. Við færumst alltaf aðeins áfram í þessu ferli sem sorgin er. Missirinn fylgir þeim alla ævi en ég finn að allt svona, eins og námskeiðið, léttir á þeim.“
Inga er afar þakklát þeim sem mynda styrktarsamfélag Sorgarmiðstöðvar með því að styðja við starfið í hverjum mánuði og þannig gera starfseminni kleift að bjóða börnum og fullorðnum upp á fjölþættan stuðning í sorgarferlinu.
„Ég er þeim sem velja að styðja við Sorgarmiðstöð mjög þakklát, þakklát fyrir að svona úrræði sé í boði fyrir börnin mín. Það skiptir miklu máli fyrir þau og þeirra framtíð að geta unnið úr sorginni á þennan hátt.“
Sorgarmiðstöð heldur reglulega námskeið fyrir börn í sorg og stefnt er að næsta námskeiði í upphafi árs 2026.
