Lokað frá 23. desember til 3. janúar. Allar pantanir sem berast á þeim tíma verða afgreiddar eftir 3. janúar. Gleðilega hátíð
Sorgarviðbrögð barna og skilningur þeirra á lífi og dauða fara að mestu eftir aldri þeirra.
0-3 ára upplifa börn dauðann sem missi, aðskilnað eða að vera yfirgefin. Þau hafa hins vegar ekki skilning á endanleika dauðans.
3-6 ára börn eru þess fullviss að allt sé tímabundið og hægt sé að færa allt til betri vegar. Hugsun þeirra er draumórafull og þau ímynda sér að hugsanir þeirra og langanir geti leitt til breytinga. Þau geta t.a.m. álitið sig eiga sök á dauða ástvinar en einnig getur þessu verið öfugt farið, þ.e. að þau geta talið að þau geti lífgað einhvern við með því að vera sérlega góð eða óska þess nógu heitt.
6-8 ára börn byrja að skilja endanleika dauðans. Þau sjá hann hins vegar mest sem afleiðingu einhverskonar slysa eða vegna öldrunar. Oft hafa þau mikinn áhuga á atburðarásinni sem leiddi til dauða og velta fyrir sér hvað taki við eftir að fólk deyr.
Eftir 9 ára aldur gera börn sér grein fyrir því að dauðinn táknar endalok og ekki er hægt að snúa frá honum. Þau gera sér grein fyrir því að allir deyja, líka þau sjálf. Á þessum aldri fara börn að sýna fullorðinslegri viðbrögð við missi og sorg.
Börn sem verða fyrir áföllum og sorg sýna ekki alltaf dæmigerð sorgarviðbrögð þar sem sorg þeirra er einstök og tengist mjög þroska þeirra. Ungt barn sem verður fyrir missi þarf oft að endurvinna sorgina á nýju þroskastigi. Þess vegna tekur sorgin sig oft upp aftur hjá börnum, jafnvel alveg fram á fullorðinsár.
Sorg barna er því mjög vandmeðfarin og krefst þess að við hin fullorðnu séum undir það búin að hún brjótist fram þegar barnið fæst við krefjandi þroskaverkefni eins og að byrja í skóla og á unglingsárum. Við verðum líka að vera viðbúin því að allar breytingar á högum barna geti hrundið af stað sorgarviðbrögðum og úrvinnslu sorgar.
Börn sem orðið hafa fyrir sorg eða áföllum geta sýnt óeðlilega hegðun, dregist aftur úr í námi og þroska og sýnt ýmis líkamleg einkenni.
Verkir – barnið getur fundið til verkja hér og þar um líkamann eða allstaðar.
Mikið tilfinningalegt uppnám eins og reiði og pirringur án sýnilegs tilefnis.
Skólakvíði – barnið treystir sér illa til að stunda skólann – m.a. vegna aðskilnaðar frá foreldri og heimili og þess hversu berskjaldað það er í samvistum við skólafélagana og kennarana. Barnið vill e.t.v. helst bara vera í öryggi heimilisins.
Depurð – barnið virðist ekki geta glaðst yfir neinu, finnur ekki upp á neinu að gera og getur setið og horft út í loftið tímunum saman. Það bregst ennfremur illa við öllum tilraunum til samneytis.
Öll þessi viðbrögð geta verið eðlileg og þau geta komið upp á mismunandi tímum í þroskaferli barnsins, staðið mislengi og gengið í bylgjum.
Stælar – barnið felur tilfinningar sínar bak við erfiða framkomu, rífur kjaft við kennara og aðra sem reyna að nálgast það eða stjórna því.
Áhugaleysi – barnið sýnir engan áhuga á fólki, áhugmálum eða félagslegum athöfnum sem það tók þátt í áður.
Hræðsla við einveru – barnið getur t.a.m. ekki verið eitt heima, jafnvel þótt það sé orðið stálpað og hafi getað verið eitt heima áður en það varð fyrir missi.
Þótt flest viðbrögð og hegðun séu eðlileg þegar barn hefur orðið fyrir áfalli og missi megum við ekki skella öllum útskýringum á líðan og hegðun barna á sorgina. Ef barn sem hefur orðið fyrir áfalli nær ekki að vinna úr sorg sinni festist það í sorgarferlinu og við tekur óeðlilegt ástand sem getur endað í mikilli sálrænni kreppu. Viðbrögð eins og magapína eða andarteppa geta líka átt sér líkamlega skýringu sem ekki tengist sorginni og barnið getur þurft á læknismeðferð að halda.
Sýni börn yfirdrifin sorgareinkenni í langan tíma er ástæða að ætla að þau ráði ekki við úrvinnslu sorgarinnar og þurfi faglega aðstoð.
Orð Sigurðar Pálssonar, prests í Halllgrímskirkju, eiga vel við um viðbrögð við sorg barna:
„Barn sem glímir við vanda þarf hlýjan faðm, hlýtt hjarta og galopin eyru en munnurinn má gjarnan vera lítill“
Með stuðningi þínum og umhyggju mun barnið/unglingurinn geta unnið sig í gegnum sorgina.
• Trevor Romain: Hvað í veröldinni gerir maður þegar einhver deyr? Skálholtsútgáfan, 2010. Þessi bók tekur á fjölda spurninga sem börn og unglingar velta oft fyrir sér eftir ástvinamissi.
• Guðrún Alda Harðardóttir. Það má ekki vera satt. Sagan var fyrst gefin út árið 1983 undir nafninu Þegar pabbi dó. Hasla, 1983.
Þetta er raunsæ saga um dauðann og lífið, séð frá sjónarhóli sex ára drengs.
• Astrid Lindgren: Bróðir minn Ljónshjarta. Forlagið, 2012.
• Sigurður Pálsson: Börn og sorg. Skálholtsútgáfan, 1998. Endurútgefin 2021. Sorgarmiðstöð studdi útgáfuna.
Efni bókarinnar stendur vel fyrir sínu og ætlað til leiðsagnar.
LÍFSGÆÐASETUR Í ST. JÓ
SUÐURGATA 41, 220 HAFNARFJÖRÐUR
sorgarmidstod@sorgarmidstod.is
Sími: 551 4141
Kennitala: 521118-0400
Reikningsnúmer: 0513-26-009753
Landlæknisembættið er verndari Sorgarmiðstöðvar