Í vikunni hlaut Sorgarmiðstöð fjölskylduviðurkenningu SOS Barnaþorpanna fyrir stuðning og þjónustu í þágu barnafjölskyldna á Íslandi. Eliza Reid forsetafrú afhenti Karólínu Helgu Símonardóttur, stjórnarformanni viðurkenninguna á alþjóðlegum degi fjölskyldunnar.
Á athöfninni ávarpaði Eva Skarpaas, einn af þjónustuþegum Sorgarmiðstöðvar viðstadda. Þar deildi hún reynslu sinni af því hvernig þjónusta Sorgarmiðstöðvar nýttist fjölskyldunni þegar sonur Evu féll frá ungur að aldri. Eva segir að hjá Sorgarmiðstöð hafi hún fengið stuðning, hitt fólk með sömu reynslu og öðlast von um að finna lífsgleðina á ný.
Umsögn valnefndara
„Í SOS barnaþorpum um allan heim býr fjöldi barna sem hefur misst foreldra sína og/eða aðra ættingja og syrgir af þeim sökum. Sorgin er því vel þekkt viðfangsefni í barnaþorpunum og fögnum við því öfluga og mikilvæga starfi sem Sorgarmiðstöð sinnir fyrir syrgjandi börn og fjölskyldur hér á landi,“.
Í nefndinni sátu Salbjörg Bjarnadóttir, fyrrverandi sérfræðingur hjá Landlæknisembættinu, Sigrún Þórarinsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Kópavogs, Ragnar Schram framkvæmdastjóri SOS og Hjördís Rós Jónsdóttir félagsráðgjafi og fræðslufulltrúi SOS.
Sorgarmiðstöð þakkar innilega fyrir þessa mikilvægu viðurkenningu og höldum við ótrauð áfram við vinnu okkar til stuðnings börnum og barnafjölskyldum hjá Sorgarmiðstöð.