Þriðja árið í röð veitir Sorgarmiðstöð viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu syrgjenda á Íslandi. Viðurkenningin er í formi heiðursbolla og í ár veitti Sorgarmiðstöð Heiðursbollann 2023 til þeirra Jónu Dóru Karlsdóttur og Olgu Snorradóttur. Bollinn er unnin af Kristínu Sigfríði Garðarsdóttur keramikhönnuði og var það landlæknir Alma Möller sem afhenti Heiðrsbollann en landlæknisembættið er verndari Sorgarmiðstöðvar.
Jóna Dóra og Olga hljóta þessa viðurkenningu fyrir óeigingjarnt og afar mikilvæga starf í þágu syrgjenda en það voru þær sem komu að stofnun Nýrrar dögunar árið 1987, sem er elsta grasrótarfélagið á sviði sorgarúrvinnslu á Íslandi. Með tilkomu samtakanna varð loks til stuðningur við syrgjendur og aðstandenda þeirra. Ný dögun stóð fyrir fræðsluerindum, útgáfu fræðsluefnis og fréttabréfs, stuðningshópastörfum og ýmsum samverustundum. Opin hús voru einstaklega vel sótt hjá samtökunum þar sem syrgjendur gátu komið saman og átt gott samtal um sorgina. Samtökin stóðu einnig fyrir mikilvægri fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi.
Ný dögun átti einnig stóran þátt í stofnun Sorgarmiðstöðvar því stofnun miðstöðvarinnar má rekja til vinnufundar sem Ný dögun hélt í tilefni af 30 ára starfsafmæli sínu árið 2017.
Í tilefni að þessu heimsóttu þær Jóna Dóra og Olga Sorgarmiðstöð, tóku á móti Heiðursbollanum 2023 og þáðu veitingar frá Gulla Arnari. Sorgarmiðstöð þakkar þessum góðu konum fyrir yndislega stund, allt þeirra framlag til syrgjenda en jafnframt fyrir að vekja athygli á málefninu og mikilvægi sorgarúrvinnslu sem lið í eflingu lýðheilsu samfélagsins.
Þess má geta að Sorgarmiðstöð fékk Jónu Dóru í samtal í hlaðvarðsþátt okkar ,,Sorg og missir“ sem má finna hér á heimasíðunni.
Við afhendingu Heiðursbollans 2023 voru einnig viðstaddar Berglind Arnardóttir formaður, Ína Lóa Sigurðardóttir framkvæmdastjóri og Jóhanna María Eyjólfsdóttir fagstjóri.
Ljósmyndari var Olga Björt.