Góð ráð fyrir aðstandendur

Vanþekking og hræðsla við dauðann og sorgina er oft hindrun þeim sem vilja veita stuðning. Misskilin tillitsemi, s.s. að kunna ekki við að hringja eða halda að truflun stafi af því að heimsækja syrgjanda, eykur oft á einmanaleika og vanmáttarkennd syrgjenda.

Hér á eftir koma nokkrir punktar um hvernig aðstandendur geta stutt við bakið á þeim sem hafa misst ástvin.

Það er æskilegt að skoða fyrst tengslin við þann sem var að missa ástvin. Ertu náinn vinur, kunningi eða fjarskyldur ættingi?

Þegar einstaklingur hefur nýlega misst ástvin er líklegt að hann vilji eingöngu umgangast innsta hringinn, sína allra nánustu fyrst eftir dauðsfallið. En oft vitum við ekki í hvaða hring við erum gagnvart syrgjandanum eða hversu nálægt við ættum að koma. Erum við í innsta hring; nánustu vinir og fjölskylda? Eða erum við í næsta hring; félagar og góðir kunningjar? Erum við enn fjær; fjarskyldari ættingjar eða málkunnugt fólk?

Hér á eftir eru nokkrar hugmyndir um hvað þú getur gert til að styðja við bakið á þeim sem hefur misst ástvin. Mundu samt að það er mikilvægast af öllu að virða næði og persónulegt rými hvers og eins. Við erum öll ólík og það sem gæti hentað einum er jafnvel óþægileg upplifun fyrir annan. Mikilvægt er að bjóða aðstoðina og fá leyfi syrgjandans fyrir því sem þig langar að gera. Oft er best að byrja á að tala við nánasta aðstandanda syrgjandans og bera hugmyndina undir hann.

Innsti hringur – nánustu vinir og fjölskylda

Fyrst eftir missi er gott að:

 • Koma og vera hjá þeim sem hefur misst. Ekki vera gestur, vertu bara á staðnum, syrgjandinn hefur ekki orku í miklar samræður eða taka á móti gestum.
 • Hafa samband. Með því sýnir þú að þér er ekki sama. Farðu í heimsókn og gefðu af tíma þínum. Mundu að syrgjandi á oft erfitt með að hafa frumkvæði og hefur ekki þann kraft sem þarf til að stuðla að samskiptum. Að lyfta upp símtólinu getur verið fólki í sorg um megn. Hafðu líka samband á frídögum. Þá er sársaukinn oft mestur.
 • Muna að syrgjandinn þarf á stuðningi þínum að halda. Nærvera þín gæti skipt sköpum.
 • Bjóða fram aðstoð við undirbúning á jarðarför og öllu sem því fylgir.
 • Koma með tilbúinn mat.
 • Fara í búðina og versla það sem vantar í ískápinn.
 • Fara með börnin í og úr skóla/leikskóla.
 • Aðstoða við að kanna réttindi og tryggingamál, sækja um útfararstyrk hjá stéttarfélagi hins látna.
 • Hjálpa með bílamálin, smurningu, skoðun, þrif o.fl.
 • Koma og sinna börnunum. Ef þau vilja ekki fara út með þér vertu þá á staðnum og leiktu við þau.
 • Koma á staðinn og elda fyrir fjölskylduna.
 • Bjóða syrgjandanum með þér út í göngutúr, á tónleika, út að borða, í nudd o.fl.
 • Aðstoða með þvottinn um stund. Fara með óhreina tauið heim til þín og skila því
 • aftur tilbúnu í skápana.
 • Þrífa heimilið, ágætt fyrir vinahópinn að gera það saman. Senda syrgjandann í dekur á meðan.
 • Sýna hluttekningu, einlægni og heiðarleika. Vertuóhrædd(ur) við að sýna eigin vanmátt.
 • Standa við gefin loforð. MJÖG MIKILVÆGT.
 • Gefa faðmlag og hlýju. Faðmlag og tillitsöm snerting veitir styrk og segir oft meira en mörg orð. Hafðu þó í huga að sumum kann að þykja líkamleg snerting óþægileg. Virtu það.
 • Hlusta, hlusta, hlusta. Það er syrgjendum afar mikilvægt að eiga traustan áheyranda. Virk hlustun felur í sér að sýna einlægan áhuga, t.d. með því að kinka kolli, horfast í augu við þann sem talar og skjóta inn stuttum, hvetjandi athugasemdum. Ekki gefa ráð eða taka orðið af syrgjandanum. Ekki breyta um umræðuefni. Með því gætir þú lokað á möguleika til að veita stuðning.
 • Virða tilfinningar syrgjandans og líðan. Mikilvægt er að staðfesta að tilfinningar sorgarinnar séu eðlileg viðbrögð við erfiðum kringumstæðum.
 • Forðast að dæma hagi eða hátterni syrgjenda. Láttu það ekki á þig fá þó þú skiljir ekki alltaf viðbrögð og hegðun þeirra. Sorgin birtist með ólíkum hætti og skýtur stundum upp kollinum öllum að óvörum. Mundu að sorginni verður ekki afmörkuð stund. Syrgjendur kunna að hafa þörf fyrir að tala aftur og aftur um hinn látna og aðstæður andlátsins, einnig mörgum mánuðum og árum eftir að atburðirnir áttu sér stað.

Næsti hringur – ættingjar, félagar og góðir kunningjar

Fyrst eftir missi er gott að:

 • Hafa samband. Með því sýnir þú að þér er ekki sama. Farðu í heimsókn og gefðu af tíma þínum. Mundu að syrgjandi á oft erfitt með að hafa frumkvæði og hefur ekki þann kraft sem þarf til að stuðla að samskiptum. Að lyfta upp símtólinu getur verið fólki í sorg um megn. Hafðu líka samband á frídögum. Þá er sársaukinn oft mestur.
 • Senda skilaboð eða kveðju á samfélagsmiðlum. Ekki skrifa kveðjuna á vegginn, einkaskilaboð eru persónulegri.
 • Fara í búðina eða bakaríið. Hengdu eitthvað gotterí á húninn og sendu svo sms í símann um að það sé komin sending.
 • Koma með tilbúinn mat.
 • Fara með börnin í og úr skóla/leikskóla.
 • Hjálpa með bílamálin, smurningu, skoðun, þrif o.fl.
 • Þrífa heimilið, ágætt fyrir vinahópinn að gera það saman. Senda syrgjandann í dekur á meðan.
 • Taka til í garðinum. Það er sniðugt fyrir vinahópinn að taka sig saman og gera garðinn fínan.
 • Moka tröppurnar.
 • Gott er fyrir syrgjanda að eiga eitthvað þegar fólk kemur í heimsókn.
 • Bjóða syrgjandanum með þér út í göngutúr, á tónleika, út að borða, í nudd o.fl.
 • Bjóða fram aðstoð með börnin eða gæludýrið á heimilinu. EKKI segja: ,,Ég er til staðar ef þú vilt fá hjálp, þú getur alltaf hringt.” Það er mjög ólíklegt að syrgjandinn hringi í aðra og kalli eftir aðstoð. Hann er mjög berskjaldaður og meyr vegna áfallsins sem hann hefur orðið fyrir og það er erfitt að biðja um hjálp í þessari stöðu. Segðu frekar t.d. ,,Mig langar að fá börnin lánuð á laugardaginn og gera eitthvað með þeim. Get ég komið kl. 14 og sótt þau? Hvaða tími hentar þér?”
 • Sýna hluttekningu, einlægni og heiðarleika. Vertuóhrædd(ur) við að sýna eigin vanmátt.
 • Standa við gefin loforð. MJÖG MIKILVÆGT.
 • Gefa faðmlag og hlýju. Faðmlag og tillitsöm snerting veitir styrk og segir oft meira en mörg orð. Hafðu þó í huga að sumum kann að þykja líkamleg snerting óþægileg. Virtu það.
 • Hlusta, hlusta, hlusta. Það er syrgjendum afar mikilvægt að eiga traustan áheyranda. Virk hlustun felur í sér að sýna einlægan áhuga, t.d. með því að kinka kolli, horfast í augu við þann sem talar og skjóta inn stuttum, hvetjandi athugasemdum. Ekki gefa ráð eða taka orðið af syrgjandanum. Ekki breyta um umræðuefni. Með því gætir þú lokað á möguleika til að veita stuðning.
 • Virða tilfinningar syrgjandans og líðan. Mikilvægt er að staðfesta að tilfinningar sorgarinnar séu eðlileg viðbrögð við erfiðum kringumstæðum.
 • Forðast að dæma hagi eða hátterni syrgjenda. Láttu það ekki á þig fá þó þú skiljir ekki alltaf viðbrögð og hegðun þeirra. Sorgin birtist með ólíkum hætti og skýtur stundum upp kollinum öllum að óvörum. Mundu að sorginni verður ekki afmörkuð stund. Syrgjendur kunna að hafa þörf fyrir að tala afur og aftur um hinn látna og aðstæður andlátsins, einnig mörgum mánuðum og árum eftir að atburðirnir áttu sér stað.
 • Mikilvægt er að við látum öll vita af okkur reglulega með því að hringja, kveðjum í tölvupósti eða hafa samband á samfélagsmiðlum. Fyrstu tvö árin eru oftast erfiðust. Ekki hverfa eftir jarðarförina, haltu áfram að láta vita af þér og bjóða fram aðstoð.

Ysti hringur – fjarskyldir ættingjar eða málkunnugt fólk

Fyrst eftir missi er gott að:

 • Senda tölvupóst eða kveðju á samfélagsmiðlum. Ekki á vegginn, einkaskilaboð eru persónulegri. Það er alltaf gott að vita af kunningjum og ættingjum sem hugsa fallega til manns .
 • Fara í búðina eða bakaríið. Hengdu eitthvað gotterí á húninn og sendu svo sms í símann um að það sé komin sending.
 • Koma með tilbúinn mat.
 • Gott er fyrir syrgjanda að eiga eitthvað þegar fólk kemur í heimsókn.
 • Senda fallegan glaðning s.s. gjafabréf í dekur, brunch, leikhús, hlýja vettlinga, góða bók. Eitthvað fallegt og notalegt sem þú telur að gleðji.
 • Senda börnunum gjafabréf í bíó, leikhús eða annað í pósti. Það er alltaf gaman fyrir þau að fá glaðning inn um lúguna.
 • Vera þolinmóð/ur og skilningsrík/ur. Syrgjandi hefur ekki orku í að umgangast of mikið af fólki, það er ótrúlega lýjandi að vera í sorg. Það er eðlilegt að hann leyfi sínum nánustu að sinna sér að mestu fyrsta árið. Ekki hætta samt að láta vita af þér og senda falleg skilaboð.

Lokað yfir hátíðirnar

Sorgarmiðstöð verður lokuð frá 25. desember til 2. janúar. Ef erindið er brýnt má hringja í neyðarsíma okkar 862 4141

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira