Tilfinningar sorgar

Fyrir marga er hjálplegt að skilgreina sorgina út frá nokkrum mismunandi tilfinningum. Röð tilfinninga og lengd er mismunandi á milli einstaklinga. Sumir upplifa eina tilfinningu meiri en aðra og sumir upplifa ekki allar tilfinningarnar.

Það er eðlilegt að upplifa allar neðantaldar tilfinningar og mikilvægt að geta unnið sig í gegnum þær, tekist á við raunveruleikann og öðlast jafnvægi. Eftir því sem tíminn líður mun draga úr sorginni og hún verður sársaukaminni en hverfur aldrei að fullu. Við lærum að lifa með henni.

Doða - og óraunveruleikatilfinning

Margir syrgjendur hafa lýst mikilli doða- og óraunveruleikatilfinningu fyrstu mánuðina eftir missi. Það er engu líkara en að skynfærin nemi skilaboð á annan hátt en vant er. Sorgmætt fólk virðist stundum hvorki heyra né skilja það sem sagt er. Það verður gjarna utan við sig og getur fundið fyrir ruglingslegum hugsunum og ringulreið. Syrgjendur lýsa líðan sinni gjarnan þannig að þeir séu ,,frosnir“ eða ,,fastir“.

Afneitun

Afneitun er önnur tilfinning. Þá forðast syrgjandinn að horfast í augu við missinn og á þann hátt getur hann takmarkað sársauka og vanlíðan tímabundið.

Reiði

Reiðin er ein þeirra erfiðu og sterku tilfinninga sem birtast hjá syrgjendum og er eðlilegur hluti af sorgarferlinu.

Reiðin getur tekið á sig ýmsar myndir. Hún getur beinst gegn syrgjandanum sjálfum, hinum látna, læknum og hjúkrunarfólki og ekki má gleyma reiðinni sem beinist gegn Guði og lífinu sjálfu. Reiðin kann að fá útrás með því að finna blóraböggul, ástæðu fyrir hinum hörmulegu atburðum. Mikilvægt er að horfast í augu við reiðina og sýna þær tilfinningar sem við höfum í sorgarferlinu. Fólk sem geymir reiðina innra með sér getur upplifað seinna í lífinu bæði líkamleg og streitutengd vandamál vegna þessara niðurbældu tilfinninu.

Ásökun eða sektarkennd

Ásökun eða sektarkennd eru tilfinningar sem tengjast reiðinni og geta skapað mikla vanlíðan og streitu. Reiðin leitar oft svara við spurningum s.s. „Hvers vegna ég?“ eða „Hvað gerði ég til að verðskulda þetta?“ Sektarkenndin kemur fram þegar eitthvað virðist ósagt eða ofsagt, ógert eða ofgert.

Einmanleiki og depurð

Einmanaleiki og depurð birtist oft síðar í sorgarferlinu, jafnvel nokkrum mánuðum eftir missi. Fyrstu vikur sorgarinnar einkennast af viðbrögðum við áfallinu s.s. reiði, sekt og afneitun og á því tímabili er síður rými fyrir einmanaleik. Svo er sem óbærilegur einmanaleiki og depurð þrengi sér inn í líf syrgjandans. Þessar tilfinningar geta haft áhrif á daglegt líf viðkomandi. Syrgjandinn hugsar þá minna um eigin heilsu, nærist illa og á erfitt með tengsl bæði við annað fólk og umhverfi sitt. Hann hefur hvorki frumkvæði né kraft til að leita eftir samskiptum. Syrgjandinn upplifir mikið tómarúm og er stundum félagslega einangraður, hræddur og kvíðinn og skilur ekki hvað er að gerast innra með honum. Breytt hlutverk kallar á nýja færni, sem kann að vera erfitt að tileinka sér á álagstíma. Þá er sjálfsmyndin einnig oft skekin, þegar mikilvægur hluti lífsins breytist við fráfall ástvinar.

Lokað yfir hátíðirnar

Sorgarmiðstöð verður lokuð frá 25. desember til 2. janúar. Ef erindið er brýnt má hringja í neyðarsíma okkar 862 4141

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira