13/12/2020
Í Sjónvarpi/RÚV

Aðventustund fyrir syrgjendur – sýnd á RÚV

Oft er erfitt að horfa fram til jóla þegar ástvinur hefur fallið frá. Um árabil hafa sorgarsamtök, Landspítalinn og Þjóðkirkjan boðið þeim sem nýlega hafa misst ástvin til samkomu á aðventunni. Þetta hefur verið stund kærleika og huggunar fyrir syrgjendur í aðdraganda jóla.

Vegna samkomutakmarkana verður stundinni að þessu sinni sjónvarpað til allra landsmanna frá Grafarvogskirkju sunnudaginn 13. desember kl. 17:00.

Séra Guðrún Karls Helgudóttir kynnir stundina. Lifandi tónlist verður í höndum Sigríðar Thorlacius, Sigurðar Guðmundssonar, Matthíasar Stefánssonar og Hilmars Arnar Agnarssonar.  Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson flytur hugvekju og biskup Íslands,frú Agnes M. Sigurðardóttir fer með lokaorð.

Fjölskyldur geta tekið þátt í stundinni með því að kveikja á kerti í minningu látinna ástvina. Landsmenn allir eru hvattir til að sýna syrgjendum samhug með því að kveikja á kerti heima í stofu eða úti fyrir. Saman skulum við mynda bylgju hlýhugar og samkenndar til stuðnings hvert öðru á erfiðum tímum. 

Árný Guðmundsdóttir táknmálstúlkar á RÚV 2, 13. desember kl. 16:40

Landspítalinn, Sorgarmiðstöð og Þjóðkirkjan.

Lokað yfir hátíðirnar

Sorgarmiðstöð verður lokuð frá 25. desember til 2. janúar. Ef erindið er brýnt má hringja í neyðarsíma okkar 862 4141

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar eru notaðar kökur (e. cookies). » meira