Að missa náinn ástvin er án efa eitthvert mesta áfall sem börn og unglingar geta orðið fyrir. Slíkt áfall getur fylgt börnum/unglingum ævina á enda og því nauðsynlegt að hjálpa þeim að vinna vel úr missinum svo áfallið verði ekki hamlandi seinna meir. Fagleg aðstoð, fjölskyldan og að hitta aðra krakka/unglinga sem deila reynslu er oft mikil hjálp.
Sorgarmiðstöð býður upp á námskeið/stuðningshópastarf fyrir börn og unglinga 6 – 15 ára sem hafa misst náinn ástvin. Það er hægt að skrá sig hvenær sem er og er farið af stað með námskeið/hóp þegar hann er orðinn fullskipaður.
Börn og unglingar 6- 15 ára er boðið upp á námskeið fjóra laugardaga í röð eða tvær helgar.
Það kostar ekkert að koma á námskeið/í stuðningshóp en nauðsynlegt er að skrá sig til að tryggja þátttöku.
Nánari lýsing: Á námsskeiðinu fá allir tækifæri til að skapa, upplifa, og tjá sig í gegnum leik og verkefni í öruggu og styðjandi umhverfi. Hópnum er aldursskipt og er lögð áhersla á að mæta þörfum hópsins og hvers og eins innan hans. Unnið er með eftirfarandi þætti :
TRAUST
Efnisþættir: Sjálfstraust, hugrekki, að treysta öðrum, að treysta aðstæðum.
TENGSL
Efnisþættir: Félagslegur og tilfinningalegur lærdómur, samskipti, samvinna, tjáning og samkennd.
SJÁLFSÞEKKING
Efnisþættir: Aukin meðvitund varðandi færni, líðan og samskipti, yfirfærsla á daglegt líf, jákvæð reynsla.
Elísabet Lorange, listmeðferðafræðingur og Helga Jóna Sigurðardóttir, iðjuþjálfi og fjölskyldumeðferðafræðingur halda utan um námskeiðið. Þær hafa mikla reynslu af vinnu með börnum í sorg og sinna einnig hópastarfi barna í Ljósinu.