Við andlát maka á eftirlifandi maki rétt á mánaðarlegum greiðslum makalífeyris úr lífeyrissjóðum sem hinn látni hefur greitt til og sömuleiðis barnalífeyri með börnum. Reglur hinna ýmsu sjóða um þetta efni eru lítið eitt mismunandi og hér fyrir neðan verður aðeins sagt almennum orðum frá því hvernig þeim er háttað. Nákvæmar upplýsingar er að finna á heimasíðum lífeyrissjóðanna og hjá starfsfólki þeirra. Sækja þarf um maka- og barnalífeyri skriflega en hjá sumum sjóðum er hægt að skila inn rafrænni umsókn. Sjóðirnir senda þér skriflegt svar þar sem fram kemur nákvæmlega hversu mikið þú færð greitt og hve lengi.
Margir hafa greitt í fleiri en einn sjóð um starfsævina en yfirleitt dugir að tala við þann sem greitt var í síðast og þá hafa starfsmenn hans umsjón með því að tryggja að greiðslur komi úr öðrum lífeyrissjóðum eftir því sem við á. Ef þú veist ekki í hvaða sjóð maki þinn greiddi síðast skaltu snúa þér til síðasta vinnuveitanda hans.
Öllum ber lögum samkvæmt að greiða í lífeyrissjóð og ber vinnuveitanda að skila greiðslum til sjóðsins. Þeim er ætlað að standa undir greiðslum t.d. vegna fráfalls maka.
Séreignasparnaður og tilgreind séreign
Séreignarsparnaður er sparnaður sem launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar eiga kost á að greiða í til viðbótar við lögbundinn lífeyrissparnað.
Tilgreind séreign er sérstök tegund séreignarsparnaðar sem samið hefur verið um á vinnumarkaði
Sem eftirlifandi maki áttu rétt á að fá barnalífeyri með börnum sem hinn látni sjóðfélagi hafði á framfæri sínu þar til þau eru 18 ára gömul. Í sumum tilvikum er hann greiddur beint til þín en öðrum á bankareikning á nafni barnsins. Oftast eru þau þó ekki viðtakendur greiðslunnar fyrr en eftir að þau verða fjárráða en misjafnt er eftir sjóðum við hvaða aldur barnalífeyrir fellur niður (18-23 ára).
Upphæð barnalífeyris er mjög mismunandi frá einum sjóði til annars og munur er einnig á reglum um hvenær réttur hefur myndast til að fá óskertan barnalífeyri.
Sértu ekki með nein börn á framfæri er fullur makalífeyrir langoftast greiddur að lágmarki í 36 mánuði (þrjú ár) en síðan er helmingur þeirrar upphæðar greiddur í 24 mánuði (tvö ár) til viðbótar. Sértu með 50% örorku eða meira kveða reglur oft á um greiðslur á meðan sú örorka varir eða þar til þú nærð 65 eða 67 ára aldri.
Fullur makalífeyrir er greiddur þar til yngsta barn ykkar á framfæri þínu nær ýmist frá 18 ára eða upp að 23 ára aldri, allt eftir því hvað ólíkar reglur sjóðanna segja til um, nema að þú gangir aftur í hjónaband eða skráir þig í sambúð en þá fellur hann niður.
Réttur til makalífeyris gengur þó aftur í gildi ef síðara hjónabandinu eða sambúðinni er slitið án réttar til lífeyris.
Það fer mikil orka og vinna við að sýsla í ofangreindum málum í kringum ástvinamissi og því mjög gott að fá aðstoð og stuðning frá ástvinum eða fagaðila.
Texti unnin af Ernu Guðmundsdóttur lögfræðing fyrir Sorgarmiðstöð
LÍFSGÆÐASETUR Í ST. JÓ
SUÐURGATA 41, 220 HAFNARFJÖRÐUR
sorgarmidstod@sorgarmidstod.is
Sími: 551 4141
Kennitala: 521118-0400
Reikningsnúmer: 0513-26-009753
Landlæknisembættið er verndari Sorgarmiðstöðvar